Takata í þrot

AFP

Japanska fyrirtækið Takata óskaði eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta í morgun en undanfarna daga hefur verð hlutabréfa í fyrirtækinu lækkað mjög mikið. Forstjóri Takata lætur strax af störfum.

Takata hefur um langt skeið framleitt öryggispúða fyrir 19 framleiðendur fólks- og vöruflutningabíla, s.s. Volkswagen, Honda, Toyota og Tesla. Á síðasta ári var orðið ljóst að innkalla þyrfti um 100 milljónir gallaðra Takata-púða á heimsvísu. Gallinn lýsir sér í því að öryggispúðarnir geta blásið upp af of miklum krafti svo að málm- og plastagnir skjótast í farþega. Í Bandaríkjunum er búið að laga um 38% af þeim 43 milljónum púða sem reyndust gallaðir þar í landi, en í Japan er búið að laga um 73% af 19 milljónum gallaðra púða.

Fyrr á þessu ári samdi Takata við bandarísk stjórnvöld, bílaframleiðendur og fulltrúa neytenda um greiðslu milljarðs dala í bætur, en talið er að rekja megi 17 dauðsföll til gallans í púðunum.

Bandaríska fyrirtækið Key Safety Systems tekur rekstur Takata yfir og greiðir fyrir jafnvirði 1,6 milljarða dala. Þrátt fyrir að hafa sótt um gjaldþrotameðferð mun Takata þurfa að standa straum af kostnaðinum við innköllunina, en ef ekki eru nægar eignir eftir hjá fyrirtækinu sitja bílaframleiðendur uppi með reikninginn. Segir Bloomberg að á heimsvísu muni gallinn í öryggispúðunum kosta bílaframleiðendurna um fimm milljarða dala en að með sölu á eignum Takata fáist aðeins 1,5 til tveir milljarðar upp í kostnaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK