Vísbendingar um að farið sé að hægja á hagvexti

Þrír af sex undirliðum lækka frá í apríl en mest …
Þrír af sex undirliðum lækka frá í apríl en mest áhrif til lækkunar hafa samdráttur í ferðamannafjölda og lækkun væntingavísitölu mbl.is/Ómar Óskarsson

Leiðandi hagvísir Analytica bendir til þess að hægja sé á hagvexti en hagvísirinn reyndist óbreyttur í maí. Þá voru gildi fyrir mars og apríl endurskoðuð lítillega niður á við.

Í fréttatilkynningu segir að teknu tilliti til áhrifa árstíðasveiflu gæti landsframleiðsla dregist saman á milli fyrsta og annars ársfjórðungs þótt hagvöxtur á ársgrunni geti áfram orðið yfir langtímaleitni. Þrír af sex undirliðum lækka frá í apríl en mest áhrif til lækkunar hafa samdráttur í ferðamannafjölda og lækkun væntingavísitölu, hvort tveggja leiðrétt fyrir áhrifum árstíðasveiflu og langtímaleitni.

Þá er bent á að langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er þó enn sterk en áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK