Setur reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána

Tilgangur reglnanna er að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda …
Tilgangur reglnanna er að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart mögulegum viðsnúningi á fasteignaverði, „nú þegar vaxandi spennu gætir á húsnæðismarkaði.“ Morgunblaðið/Ómar

Fjármálaeftirlitið hefur í dag sett reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Samkvæmt reglunum sem nú taka gildi skal veðsetningarhlutfall vera að hámarki 85% af markaðsverði fasteignar. Þegar um er að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign verður heimilt að lána allt að 90% af markaðsverði en samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um fasteignalán til neytenda skal heimila aukið svigrúm vegna lána til fjármögnunar kaupa á fyrstu fasteign.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu.

Þar segir að tilgangur reglnanna sé að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart mögulegum viðsnúningi á fasteignaverði, nú þegar vaxandi spennu gætir á húsnæðismarkaði.

Fjármálastöðugleikaráð tekur undir tillögur FME

„Fjármálaeftirlitið stuðlar að mildun áhættu vegna lánveitinga í atvinnuskyni með öðrum hætti, svo sem með viðeigandi eiginfjárkröfum til fjármálafyrirtækja. Þó svo að í reglunum sé kveðið á um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána hindrar það hvorki né ætti að letja lánveitendur til að beita lægri hámörkum almennt eða í einstökum tilfellum þegar við á,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að fjármálastöðugleikaráð hafi sent Fjármálaeftirlitinu álit sitt á reglunum, þars sem tekið er undir tillögur Fjármálaeftirlitsins og áréttar að aðstæður á húsnæðismarkaði gefi tilefni til að huga að viðnámsþrótti bæði lánveitenda og lántaka.

„Það er álit ráðsins að reglurnar séu til þess fallnar að mæta aðstæðum sem ógnað gætu fjármálastöðugleika eða haft óæskileg áhrif á fjármálakerfið,“ segir í í tilkynningunni og er bent á að raunvirði íbúðahúsnæðis hafi hækkað umtalsvert síðustu misseri og reyndist ársvöxtur þess 21,2% í júní síðastliðnum.

Áfram verði þrýstingur á fasteignaverð

„Vísbendingar eru um að áfram verði þrýstingur á fasteignaverð. Hækkun húsnæðisverðs fram að miðju ári 2016 var að miklu leyti í samræmi við áhrifaþætti húsnæðisverðs, svo sem laun og byggingakostnað. Undanfarin misseri hafa orðið frávik frá þessari þróun og vaxandi misvægis hefur gætt milli húsnæðisverðs og þessara undirliggjandi þátta,“ segir í tilkynningunni.

Þar er jafnframt bent á þá staðreynt að samkvæmt gögnum FME hafa lánastofnanir slakað á lánaskilyrðum að undanförnu samhliða aukinni samkeppni á fasteignalánamarkaði.

Vöxtur útlána til heimila hefur þó verið hóflegur og er bent á að tölur yfir skuldir heimila, leiðréttar fyrir verðlags- og gengisáhrifum, hafi verið nær óbreyttar milli áranna 2015 og 2016.

„Reglurnar um hámark veðhlutfalls fasteignalána eru því einkum settar til að tryggja að lánveitendur slaki ekki frekar á lánaskilyrðum í ljósi harðnandi samkeppni á fasteignalánamarkaði nú þegar hækkanir á verði íbúðahúsnæðis eru mjög miklar, vextir fara lækkandi og misvægis gætir milli verðþróunar og þeirra efnahagsþátta sem jafnan skýra þróun húsnæðisverðs,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK