Staðfestir ákvörðun um að banna auglýsingu Maclands

Úr auglýsingunni frægu.
Úr auglýsingunni frægu. Skjáskot

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að banna birtingu á „BOOM“-auglýsingum Maclands. Er það mat Neytendastofu að auglýsingarnar brjóti gegn góðum viðskiptaháttum.

Macland kærði ákvörðunina í febrúar og krafðist þess að ákvörðunin yrði tekin úr gildi. Auglýsingin frá Maclandi beindist að markaðssetningu iPhone-síma og sýndi teiknimynd af tveimur börnum fá síma í jólagjöf sem sprungu síðan í höndum barnanna. Í lok auglýsingarinnar opnaði barn hins vegar síma af gerðinni iPhone, sem ekki sprakk, og viðhafði þá orðin: „Vá iPhone. Takk mamma og pabbi. Takk fyrir að elska mig.“

Voru að gera grín að neysluvæðingu

Neytendastofu bárust ábendingar vegna auglýsingarinnar og fékk Macland bréf frá stofnuninni rétt fyrir jól þar sem fram kom að í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé m.a. fjallað um að sýna skuli varkárni í auglýsingum gagnvart trúgirni barna og unglinga og ekki misbjóða börnum við auglýsingamiðlun. Þá sé jafnframt óheimilt að brjóta í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi.

Var það mat Neytendastofu að auglýsingin gæti falið í sér brot gegn fyrrgreindum ákvæðum og var óskað eftir skýringum eða athugasemdum kæranda í tilefni af því.

Forsvarsmenn Maclands svöruðu bréfinu í janúar þar sem fram kom að fyrirtækið hafi undanfarin ár hafi gert grín að neysluvæðingu í samfélaginu. „Með því að segja að fólk elski ekki börnin sín nema þau fái síma af gerðinni iPhone sé verið að vísa til fáránleika þess þegar foreldrar gefi börnum sínum slíka síma í skóinn. Hafi auglýsingin ekki verið hugsuð á þann hátt að hún ætti að höfða til barna eða að hún hafi átt að niðurlægja eða misbjóða einhverjum,“ segir í úrskurði Neytendastofu.

Í öðru bréfi Neytendastofu til Maclands kom fram að stofnunin teldi auglýsinguna til þess fallna að vekja þau hughrif að símar af annarri tegund springi með þeim afleiðingum að höfuð barnanna verði að engu öðru en beinagrind.“ Ummæli barnsins í lok auglýsingarinnar, þar sem það þakki foreldrum sínum fyrir að elska sig, geti þannig að mati stofnunarinnar vakið þau hughrif að foreldrum fyrri tveggja barnanna í auglýsingunni hafi mátt vera ljóst að síminn kæmi til með að springa með fyrrgreindum afleiðingum,“ segir í úrskurði Neytendastofu.

Eftir seinna bréf Neytendastofu var kæranda gefið að nýju færi á að koma á framfæri athugasemdum vegna málsins en ekkert svar barst.

Hugleikur þekktur fyrir kaldhæðni

Neytendastofa birtir jafnframt útdrátt úr kæru Maclands þar sem þeim fullyrðingum var mótmælt að umrædd auglýsing sé til þess fallin að vekja þau hughrif hjá börnum og foreldrum þeirra að þau megi óttast að höfuð þeirra verði að beinagrind eigi þau tiltekna síma og að í fyrsta lagi væri það ekki augljóst á umræddum auglýsingum að höfuð barnanna breytist í beinagrindur. „Sé auglýsingin skoðuð megi sjá að ekkert breytist við líkama barnanna þegar þau opna fyrstu tvo símana annað en að andlit þeirra verði hvít. Megi allt eins ætla að börnin fái yfir sig hveiti eða annað sem geri andlit þeirra hvítt. Augljóslega sé ekki um beinagrind að ræða, enda sé líkami barnanna hinn sami og fyrir hvellinn,“ segir í kærunni.

Þá er einnig bent á að um sé að ræða verk eftir listamanninn Hugleik Dagsson, sem sé vel þekktur fyrir kaldhæðni í verkum sínum. „Hann sé teiknimyndahönnuður og þekktur fyrir að gera grín að samtímanum með ýmsum verkum sem oftar en ekki séu á gráu svæði kaldhæðninnar eða teljist svartur húmor. Gangi verk hans gjarnan út á að „sjokkera“ þá sem á þau líti og hafi hann notið fádæma vinsælda fyrir vikið,“ sagði í kærunni.

Úrskurðinn í heild má sjá hér og auglýsinguna hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK