Regnkápur rokseljast í rigningunni

Regnföt hafa verið nauðsynleg í vætunni í Reykjavík síðustu daga …
Regnföt hafa verið nauðsynleg í vætunni í Reykjavík síðustu daga og vikur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Regnkápur og annar regnfatnaður virðist ætla að vera mjög vinsæll þetta sumarið en það hefur verið frekar blautt og sólarlítið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Í samtali við mbl.is segja forsvarsmenn tveggja fyrirtækja sem selja útivistarklæðnað að regnfatnaðurinn hafi verið sérstaklega vinsæll í sumar. 

„Ellingsen hefur í gegnum tíðina verið mjög stór aðili í regnfatnaði og þetta sumar hefur verið sérstaklega mikil sala,“ segir Sölvi Snær Magnússon, markaðsstjóri Ellingsen, í samtali við mbl.is. „Það er bókstaflega hver týpan á fætur annarri að seljast upp.“

Sölvi segir mikla sölu á hvers kyns gerðum af regnfatnaði, pollagöllum á börn, regnkápum á fullorðna og unglinga og svo eru regnslár líka vinsælar.

Sölvi telur að veðrið spili inn í þessa mikla sölu, en síðustu vikur hafa verið frekar blautar. Hann segir sem dæmi að salan á regnfatnaði núna sé meiri en síðasta sumar.

Hann bendir á að þá séu aðrar vörur líka vinsælar í versluninni eins og regnheldir göngujakkar, vatnsheldar skeljar og gönguskór. „Það er ekki síður mikilvægt að vera þurr í lappirnar og það eru ekki bara gúmmístígvél sem geta veitt þá vörn,“ segir Sölvi. „Við erum með allar týpur af regnheldum fatnaði.“

66°Norður bíður eftir sumrinu

„Við höfum klárlega fundið fyrir auknum áhuga á regnkápum og skeljum í sumar,“ segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður í samtali við mbl.is. Þá segir hann fyrirtækið einnig hafa fengið  frábær viðbrögð við vatnsheldum tæknilegum jökkum og kápum úr Gore-Tex sem eru hannaðar fyrir dags daglega notkun í óútreiknanlegu íslensku veðri.

Fannar bendir á að yfirskrift sumarherferðar fyrirtækisins hafi verið „beðið eftir sumri“ eða „waiting for summer since 1926“. „Það virðist passa ágætlega við veðrið hingað til,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK