Stefnt að opnun Mathallar í ágúst

Hlemmur Mathöll mun að óbreyttu opna í ágúst, að því …
Hlemmur Mathöll mun að óbreyttu opna í ágúst, að því gefnu að öll leyfi liggi fyrir. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

Til stendur að opna Mathöllina á Hlemmi aðra helgina í ágúst, að því gefnu að öll leyfi liggi fyrir. Þetta staðfestir Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Mathallarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við höfum verið að horfa núna á aðra vikuna í ágúst en það er náttúrulega að einhverju leyti háð því að öll leyfi gangi í gegn, maður vill fara hægt í að lofa upp í ermina á sér í þeim efnum,“ segir Ragnar. Rúv greindi fyrst frá.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að opna mathöllina síðasta haust sem gekk ekki eftir og var áætlaðri opnun þá frestað til vors. Það gekk heldur ekki eftir og opnun frestað fram í júní þar sem framkvæmdir höfðu tekið lengri tíma en ætlað var í fyrstu. Ekki var allt klárt í júní og nú stefnt að opnun í ágúst.

„Það er alla vega hægt að tala um að það sé komin þriggja mánaða töf núna en svo var upphaflega stefnt að opnun í fyrra en það var nú alltaf óraunhæft miðað við það sem þurfti að gera fyrir húsið,“ segir Ragnar.

Vanmetið hvað mikið þurfti að gera

Framkvæmdum er nú hér um bil öllum lokið og rekstraraðilar flestir tilbúnir að opna en beðið er eftir því að öll leyfi frá heilbrigðiseftirlitinu liggi fyrir að sögn Ragnars. „Framkvæmdum er öllum að ljúka eða er lokið þannig að þetta er á síðustu metrunum,“ segir Ragnar.

„Það kannski var vanmetið hvað þyrfti að gera mikið fyrir hús, sem hefur verið að þjóna sem yfirbygging fyrir strætófarþega, til að breyta því í mathöll. Það er náttúrlega alveg borðliggjandi að það þurfti að breyta um hlutverk,“ segir Ragnar.

Hlemmur Mathöll. Framkvæmdum fer senn að ljúka.
Hlemmur Mathöll. Framkvæmdum fer senn að ljúka. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

Taka hafi þurft allt húsið í gegn, gera endurbætur á þaki og leggja rafmagn en burtséð frá breyttum rekstri í húsinu hafi einnig verið kominn tími á viðhald. Að sögn Ragnars hefur kostnaður aukist í samræmi við þær tafir sem orðið hafa en þann kostnað komi einkaaðilar sem að málinu standa til með að taka á sig. Hann segir kostnaðinn ekki koma til með að hafa í för með sér breyttar forsendur fyrir þá rekstraraðila sem þegar hefur verið samið við.

Skynjar miklar væntingar og áhuga

Sem stendur segir Ragnar helsta áhyggjuefnið vera af hinu góða. Hann kveðst skynja miklar væntingar og áhuga og því sé helsta spurningin hvort Mathöllin muni anna eftirspurn. „Hvort að fólk komist að og geti notið Mathallarinnar, það er í rauninni gott vandamál að hafa,“ segir Ragnar.

Nóg verður af sætum innan dyra og einnig einhver sæti fyrir utan sem hægt verður að nýta þegar veður leyfir að sögn Ragnars en ekki liggur fyrir endanlega hversu marga Mathöllin muni taka í sæti.

„Síðan eru sumir sem bjóða upp á það að taka með sér þannig að fólk getur bara valið það sem því hentar. Þetta er náttúrulega allt frá því að vera einhver grænmetissala í lausasölu og ísverslun og slíkt og svo kannski yfir í að fólk vilji setjast og fá sér rauðvín og borða matinn svona í rólegheitum,“ segir Ragnar, en alls verða tíu rekstraraðilar með fast aðsetur í Mathöllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK