Bjóða „valet“ bílastæðaþjónustu í Leifsstöð

Njáll Skarphéðins og Ómar Þröstur Hjaltason stofnendur BaseParking á bílastæði …
Njáll Skarphéðins og Ómar Þröstur Hjaltason stofnendur BaseParking á bílastæði BaseParking á Ásbrú mbl.is/Kristinn Magnússon

Í byrjun júlímánaðar stofnuðu þeir Njáll Skarphéðinsson og Ómar Þröstur Hjaltason fyrirtækið BaseParking sem býður upp á nýjung í bílageymsluþjónustu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þjónustan er svokölluð „valet parking“ þjónusta sem virkar þannig að tekið er á móti bílum við Leifsstöð og þeir keyrðir á bílastæði fyrirtækisins á Ásbrú og geymdir þar eins lengi og óskað er eftir. Auk geymslunnar er boðið upp á þrif og bón og við heimkomu viðskiptavina eru bílarnir afhentir á Leifsstöð.

Aukning um 100 bíla á viku

„Undanfarnar vikur höfum við Ómar unnið sjálfir meira og minna allan sólarhringinn við að taka á móti bílum, skila þeim og sjá um öll samskipti við viðskiptavini. Þetta er ákveðið lúxuvandamál en við erum búnir að ráða fjóra starfsmenn og þurfum að ráða fleiri á næstu vikum,“ segir Njáll.

Aðspurður segir hann eftirspurnina eftir aukinni bílastæðaþjónustu við Leifsstöð vera mjög mikla. „Þetta hefur gengið vægast sagt ótrúlega vel hjá okkur og í raun mikið betur en við þorðum að vona. Við opnuðum formlega 1. júlí og vorum kannski ekki búnir að huga að því að þetta yrði svona umfangsmikið.

Til að byrja með gerðum við ráð fyrir því að vera með um 100 bíla í geymslu en skömmu eftir að starfsemin hófst bauðst okkur að leigja eitt flottasta svæðið á Ásbrú í svona rekstur. Síðan þá hefur þetta í raun farið fram úr okkar björtustu væntingum og við erum komnir með um 300 bíla í geymslu í dag. Við höfum verið mjög heppnir hvað það varðar að leigan er sanngjörn og eigendur svæðisins eru spenntir fyrir því að vinna með okkur. Þannig hefur okkur tekist að koma starfseminni af stað algjörlega sjálfir án utanaðkomandi fjármagns,“ segir Ómar.

Ekki í beinni samkeppni

Fram að stofnun BaseParking var Isavia eina fyrirtækið sem bauð upp á bílageymslu við Leifsstöð, að frátöldu Bílahótelinu sem bauð áður fyrr upp á almenna bílageymslu en geymir í dag eingöngu bíla sem eru með bókaða aðra þjónustu, svo sem alþrif.

„Frá því að við byrjuðum höfum við í raun ekki litið á þetta þannig að við værum í beinni samkeppni við Isavia heldur þannig að við værum að bjóða upp á auka þjónustu. Isavia er náttúrlega með mikið stærri bílastæði og það væri erfitt að fara í beina samkeppni við þá án þess að auka þjónustuna. Við viljum vera í góðu samstarfi við Isavia og öll samskipti á flugstöðinni hafa gengið mjög vel,“ segir Njáll.

Í dag er Isavia með rúmlega 2.000 langtímastæði en verið er að bæta við stæðum og þau verða um 3.000 á næstu mánuðum, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. „Það er verið að meta þörfina fyrir bílastæði og yfirbyggð bílastæði samhliða uppbyggingu flugvallarins,“ segir Guðni. „Nýtingin á langtímastæðum yfir árið er ekki sérstaklega góð en Íslendingar fara mjög mikið til útlanda yfir sömu tímabilin. Þannig að til dæmis eru páskarnir á langtímastæðunum svolítið eins og kirkja á aðfangadag.“ Aðspurður hvort til standi að bæta við þjónustuþáttum í bílastæðageymslu Isavia segir Guðni að verið sé að taka í notkun nýtt bókunarkerfi. „Þá verður ódýrara að bóka fyrirfram. Eins og er erum við þó ekki að bjóða upp á aukaþjónustu eins og þrif en við höfum áður boðið upp á slíka þjónustu í gegnum verktakafyrirtæki. Frekari aukaþjónusta verður líklega skoðuð í framtíðinni.“

Á innan við mánuði eru komnir um 300 bílar í …
Á innan við mánuði eru komnir um 300 bílar í geymslu á svæði BaseParking. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Hagstæðara í lengri ferðum

Enn sem komið er er eingöngu boðið upp á að bíllinn verði sóttur á Leifsstöð en aðspurður segir Njáll að aðrir valkostir gætu bæst við í framtíðinni. „Skutlið fram og til baka kostar fimm þúsund krónur og sólarhringurinn í geymslu fimm hundruð krónur þannig að þetta er í raun svipað verð og á Leifsstöð fyrir stutta geymslu. Fyrir þá sem eru að fara í lengri ferðir er geymslan hinsvegar talsvert ódýrari hjá okkur. Það hefur samt komið okkur á óvart að mikill fjöldi viðskiptavina okkar hingað til hefur verið að fara í styttri ferðir,“ segir Ómar.

„Það segir okkur að það er greinilega eftirspurn eftir svona þjónustu en auk þess held ég að fólk kunni vel við að eiga viðskipti við fólk fremur en bílastæðahlið. Það fær líka meira fyrir peninginn og aukið öryggi,“ segir Njáll.

Bílarnir öruggari

Bílastæðið á Ásbrú er afgirt og vaktað af öryggisfyrirtæki með reglulegu millibili. „Við leggjum mikið upp úr faglegum vinnubrögðum og öryggi. Við teljum okkur bjóða upp á aukið öryggi vegna tveggja öryggisþátta. Í fyrsta lagi er alltaf fólk á okkar vegum á bílastæðinu þar sem við erum að sendast með bíla fram og til baka frá flugvellinum allan sólarhringinn. Í öðru lagi sjáum við um að leggja bílunum frá a til ö. Við teljum mikið öryggi fólgið í því fyrir sjálfan bílinn. Þar er vandað til verka og lagt þannig að engin hætta sé á að bílar verði „hurðaðir“ og rispist. Síðan eru náttúrlega engar innkaupakerrur á ferð um bílastæðið hjá okkur,“ segir Njáll.

Búa yfir reynslu af bílaþjónustu

Frá árinu 2012 hefur Ómar rekið bifreiðaþjónustuna Keyrðu mig heim sem gengur út á það að viðskiptavinum sé ekið heim á eigin bílum. „Keyrðu mig heim gerir fólki kleift að fara út á lífið á eigin bíl án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að skilja bílinn eftir einhvers staðar. Sá rekstur hefur gengið vel og hentar vel samhliða nýja rekstrinum. Við höfum sannað að okkur er treystandi fyrir bílum viðskiptavina okkar og eigum von á að viðskiptavinir Keyrðu mig heim komi til með að nýta sér þjónustu BaseParking í framtíðinni,“ segir Ómar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK