Flott föt eru ekkert grín

„Mig langaði að lífga upp á grámóskulega og tilbreytingarsnauða jakkafatatilveru íslenskra karlmanna,“ segir Margeir Örn Óskarsson, sem opnaði nýlega vefverslun með litskrúðug jakkaföt með eftirtektarverðum mynstrum af hauskúpum, hasarmyndum og öðrum skemmtilegheitum.

Batman- og Star Wars-aðdáendur, bridsspilarar og fleiri hópar geta líka fengið fatnað við sitt hæfi og jólabörnin eru ekki höfð útundan.

Margeir Örn Óskarsson, kerfisfræðingur hjá Advania á Akureyri, var ekkert á þeim buxunum að hasla sér völl í fatabransanum þegar hann heillaðist af túrkisbláum jakkafötum með hárauðum túlípönum og bindi í stíl. Fötin fengust í Riga í Lettlandi þar sem hann var staddur í árshátíðarferð ásamt konu sinni og samstarfsfólki hennar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Þulu á Akureyri.

Minningin um þessi forkunnarfögru jakkaföt fylgdi honum heim, vandlega brotin saman ofan í ferðatösku. „Þegar ég tók upp úr töskunni og sléttaði úr brotunum – sem þó voru vart sýnileg, hugleiddi ég að stofna vefverslun og bjóða landanum upp á jakkaföt í sama dúr og ég og félagi minn vöktum svo mikla lukku í á árshátíðinni,“ segir hann og útskýrir nánar:

„Við rákumst á jakkafötin, sem eru frá hollenska fyrirtækinu Opposuits, í verslun einni á rölti okkar um borgina og stóðumst ekki freistinguna. Félagi minn keypti sér ein ljósgræn með baldursbrám úti um allt. Skemmst er frá því að segja að við fengum mikla athygli þegar við mættum í múnderingunni á árshátíðina og margir höfðu sérstaklega á orði hversu vel við tækjum okkur út,“ rifjar Margeir Örn upp.

Ágætis aukabúgrein

Tveimur árum síðar, rétt fyrir jólin í fyrra, lét hann til skarar skríða og opnaði vefverslunina Flott föt, sem hann gerir út frá Akureyri. Síðan hefur klæðaburður hans sjálfs tekið miklum stakkaskiptum sem og margra landsmanna, a.m.k. miðað við fjölda pantana, sem hann afgreiðir jafnharðan. „Mig langaði að lífga upp á grámóskulega og tilbreytingarsnauða jakkafatatilveru íslenskra karlmanna,“ segir hann um framtakið. „Vefverslunin er ágætis aukabúgrein, en þó ekki svo stór í sniðum að ég fari að hætta í vinnunni hjá Advania,“ bætir hann við.

Dömudragtir með stuttum pilsum bjóðast í sama stíl og herrajakkafötin og sömuleiðis jakkaföt á litla stráka, allt niður í tveggja ára. „Jakkafötin fást í öllum regnbogans litum, einnig svört og hvít, og með alls konar afar eftirtektarverðum mynstrum; hauskúpum, hasarmyndum og skemmtilegheitum. Batman- og Star Wars-aðdáendur, bridsspilarar og fleiri hópar geta fengið jakkaföt við sitt hæfi svo fátt eitt sé talið. Einnig eru kylfingar mjög hrifnir af þeim köflóttu. Sum jakkafötin eru með stuttum skálmum og ermum. Möguleikarnir eru óþrjótandi, ef menn eiga til dæmis fleiri en eitt sett geta þeir notað buxur úr einu við jakka úr öðru.“

Býst við gósentíð fyrir jólin

Margeiri Erni finnst miður að hafa ekki á boðstólum kjóla eða klæðnað á litlar stelpur, því ella hefðu dætur hans þrjár, sem eru á aldrinum fimm mánaða til átta ára, getað verið í sama stíl og foreldrarnir um jólin. Að öðru leyti býður hann nefnilega upp á fjölskrúðugt úrval af „snilldarfötum til að keyra upp alla jólastemningu“, eins og segir á vefsíðunni. Enda má telja nokkuð víst að litskrúðug og símynstruð jakkaföt og -dragtir með jólasveinum og snjókörlum í bland við stjörnur, hreindýr og annað sem tengist jólunum falli í kramið hjá jólabörnum á öllum aldri. Margeir Örn sér fram á gósentíð fyrir næstu jól.

„Kannski geta stelpurnar mínar bara verið í strákajakkafötum,“ segir hann svo hugsi, en viðurkennir jafnframt að konan hans, Melkorka Elmarsdóttir, kunni að hafa eitthvað til málanna að leggja. „Hún hefur reyndar ekki enn fengið sér svona föt, en það á ábyggilega eftir að breytast einhvern tímann þegar okkur verður boðið í gott partí.“

Margeir Örn segir Opposuits-jakkafötin sannkallaðan tækifærisklæðnað, sem skapi skemmtilega stemningu. Sjálfur eigi hann mörg slík, en haldi þó mest upp á þau fyrstu, þessi með túlípönunum. „Ég fór til dæmis í veiði í sumar í bleikum jakkafötum með svörtum pálmatrjám, stuttum ermum og skálmum, og naut mín mjög vel,“ upplýsir hann, en er fáorður um veiðina. Honum fannst vöðlur ekki fara vel við þau bleiku.

Þótt jakkafötin séu á viðráðanlegu verði, rúmar tólf þúsund krónur, leggur Margeir Örn áherslu á að þau séu fjarri því að vera einnota, eins og sumir virðast halda. „Fötin eru þrælsterk og frágangur allur til fyrirmyndar, fóðruð og með innan- og utanávösum og má þvo í þvottavél við 30 gráður. Á miðanum innan á þeim stendur 100% polyester og 200% awesome. Awesome í merkingunni 200% æðisleg, sem er auðvitað smágrín, þótt ég sé hjartanlega sammála.“

Fermingardrengir og brúðgumar

Viðskiptavinirnir eru allt frá fermingardrengjum til sextugra karla. Oft heilu hóparnir. „Einn á fertugsaldri gifti sig í jakkafötum sem nefnast King of Heart og eru svört með rauðum hjörtum. Í öðru brúðkaupi mætti vinahópur í hlébarðajakkafötum og -drögtum og fór svo beint á þjóðhátíð í Eyjum. Þá pöntuðu starfsmenn sprautuverkstæðis í Reykjanesbæ sér jakkaföt í mismunandi litum í tilefni opnunar verkstæðisins, blaklið á Akureyri eins og það lagði sig fékk sér ljósblá föt fyrir öldungamót í blaki, stuðningsmannalið KA gul og svo mætti lengi telja,“ segir Margeir Örn hæstánægður með söluna til þessa.

Eftirspurnin er slík að hann pantar reglulega tvisvar í mánuði hjá framleiðanda. „Ég reyni líka að eiga smálager til að sinna bráðatilvikum. Stærðartöflur á vefsíðunni flottfot.is hjálpa viðskiptavinum að panta flíkur sem passa. Það heyrir til undantekninga ef svo reynist ekki vera, en þá geta þeir skilað fötunum til mín. Svo er ég í samningaviðræðum við saumastofu hér í bænum um að taka að sér smálagfæringar; stytta, þrengja og þvíumlíkt.“

Hann hefur í mörg horn að líta. Flott föt eru ekki bara grín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK