Kemst á götuna á þessu ári og í sölu á því næsta

„Það að setja prótótýpu á götuna er upphafið á ákveðnu …
„Það að setja prótótýpu á götuna er upphafið á ákveðnu ferli, hið óendanlega ferli að ná betri árangri á öllum sviðum,“ segir Ari Aðsend mynd

Stefnt er að því að prótótýpa fyrsta íslenska fjöldaframleidda bílsins fari á götuna á þessu ári og í sölu á næsta ári. Bílarnir eru framleiddir undir merkjum Ísar en Ari Arnórsson stendur á bakvið verkefnið.

Í dag koma 12-15 manns að þróun bílsins. „Við erum í dag komin með bíl sem er á hjólum og með vél. Næst á dagskrá er að koma meiri hraða á fráganginn en samkvæmt okkar áætlunum á hann að vera tilbúinn til að fara á götuna á þessu ári,“ segir Ari í samtali við mbl.is.

Komnir með sitt eigið húsnæði

Ísar er nú komið með sitt eigið húsnæði þar sem framleiðslan fer fram og segir Ari hafa gengið vel síðustu mánuði, sérstaklega þar sem nú er hann með fastráðna starfsmenn í vinnu.

„Við ætlum að byrja á að gera þennan eina bíl, prófa hann og sýna, og leyfa öðrum að prófa og gera athugasemdir,“ segir Ari og bætir við að það sé sérstaklega verðmætt. „Það gengur út á að finna sem flest sjónarmið.“

Síðan fer bíllinn í hendur skilgreindra aðila sem sjá um prófunarferlið og svo er unnið úr þeim athugasemdum sem koma úr því.

Aðsend mynd

Fimm bílar í hendur kaupenda á næsta ári

Hann segir það þó fjarri því að verkefninu ljúki þegar prótótýpan fari á götuna. „Það að setja prótótýpu á götuna er upphafið á ákveðnu ferli, hið óendanlega ferli að ná betri árangri á öllum sviðum,“ segir Ari og bætir við að það séu styrkir frá Tækniþróunarsjóði sem hafa gert þeim kleift að þróa bílinn síðasta eina og hálfa árið.

Ari segir að þegar kaupendur séu orðnir sáttir við farartækið, búnir að leggja til sínar breytingar og tilbúnir að undirrita samninga fari í gang ferli þar sem fimm bílar verða framleiddir. „Þeir bílar eiga að vera komnir í hendur kaupenda á næsta ári,“ útskýrir Ari.

Spurður um kaupverðið segir hann að fyrirtækið hafi verið að skoða verð á fullbreyttum bílum fyrir sömu farþegatölu hér á landi og ætli sér að vera samkeppnishæft við það verð. „Ég hef líka haldið því fram að fólk geti lækkað rekstrarkostnaðinn með okkar tæki,“ segir Ari. Bendir hann á að munurinn á bílum sem er breytt á Íslandi og bílum Ísars sé helst sá að þeirra bílar séru framleiddir eftir Evrópustöðlum. „Þeir sem kaupa svona bíla á Íslandi geta selt þá áfram hvert sem er í heiminum,“ segir Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK