Kortleggur áætlunargerð fyrirtækja

Catherine safnar svörum frá fjármálastjórum á landinu,
Catherine safnar svörum frá fjármálastjórum á landinu, Ófeigur Lýðsson

Catherine Elisabet Batt vinnur hörðum höndum að því að kortleggja áætlunargerðir 300 stærstu fyrirtækja landsins fyrir doktorsrannsókn sína. Hún segir að rannsóknir erlendis hafi leitt í ljós að óánægju með áætlunargerð gæti meðal fjármálastjóra. 

Rannsóknin heitir „Áætlunargerð í íslenskum fyrirtækjum” og er unnin í samtarfi við Háskólann í Reykjavík, Viðskiptaskólann í Kaupmannahöfn, Háskólann í Álaborg og Deloitte. Hún tekur mið af aðferðinni Beyond Budgeting sem er eins konar hugmyndafræði um áætlunargerðir og rekstur fyrirtækja.

„Þetta byrjaði þannig að ég var að taka eftir að það er mikið fjallað um Beyond Budgeting á Íslandi. Svo fór ég að lesa mér til um eldri rannsóknir á áætlunargerðum og þá kom í ljós að lítið sem ekkert hefur verið rannsakað hvernig fyrirtæki á Íslandi framkvæma áætlunargerðir og hvert hlutverk áætlunargerða í fyrirtækjum er,“ segir Catherine.

„Fræðin segja að áætlunargerðir eigi að vera samskiptatæki, eftirlitstæki og miðlunartæki í fyrirtækinu en það sem ég hef heyrt frá fjármálastjórum hérlendis er að þeir noti þær mest sem eftirlitstæki.“

Samanburður milli Íslands og Danmerkur

Catherine segir erlendra rannsóknir vera tvískiptar. Sumar rannsóknir sýni að áætlunargerð sé mikilvægasta og mest notaða stjórntækið hjá fyrirtækjum en aðrar rannsóknir hafi leitt í ljós mikla óánægju meðal fjármálastjóra með áætlunargerð. Niðurstöður rannsóknarinnar munu sýna hvernig ólíkar aðferðir henta ólíkum fyrirtækjum og atvinnugreinum.

„Ég held að margir fjármálastjórar velti fyrir sér hvernig þeir geti bætt ferlið við áætlunargerð innan fyrirtækisins og þess vegna er þetta tækifæri fyrir okkur í akademíunni til þess að varpa ljósi á það.“

Catherine byrjaði að hafa samband við fjármálastjóra í síðustu viku og vonast til að geta birt fyrstu niðurstöður í október. Í vor er stefnt að því að hefja sömu rannsókn í Danmörku og þá verður hægt að bera niðurstöðurnar saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK