Beltisólin þrengd hressilega í Frakklandi

Skattar verða hækkaðir á dísilbíla í Frakklandi en mikil áhersla …
Skattar verða hækkaðir á dísilbíla í Frakklandi en mikil áhersla er lögð á umhverfismál í fjárlögum næsta árs. AFP

Ríkisstjórn Emmanuel Macron, forseta Frakklands, mun á morgun kynna fjárlög næsta árs og er fastlega gert ráð fyrir að ríkið herði beltisólina verulega.

Macron hefur skuldbundið sig til þess að draga úr ríkisútgjöldum sem nemur 16 milljörðum evra. Með því er ætlunin að reyna að auka trúverðugleika Frakklands í Evrópu en mikill halli hefur verið á ríkissjóði Frakklands árum saman.

Frakkland er eitt fárra ríkja innan Evrópusambandsins sem enn er rekið með meiri halla á ríkissjóði en reglur ESB kveða á um. Samkvæmt reglum ESB mega skuldir ríkja ekki nema meiru en 3% af vergri landsframleiðslu. Macron ætlar sér að fara niður fyrir þessi 3% á næsta ári og ef það tekst þá er það í fyrsta skipti sem Frakkar ná því markmiði í áratug.

Á sama tíma stefnir Macron á að lækka skatta á fyrirtæki og fjölskyldur og eru skattalækkanirnar taldar kosta ríkissjóð 10 milljarða evra í skatttekjur. 

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, hefur varað við því að þetta eigi eftir að reynast erfitt en hans hlutverk sé ekki að vera góðviljaður.

Meðal annars er stefnt að því að draga úr útgjöldum til almannatrygginga sem nemur 5,5 milljörðum evra og að störfum á vegum hins opinbera verði fækkað um 1.600. Á sama tíma verða skattar á íbúðarhúsnæði (fasteignagjöld) lækkaðir hjá 80% fjölskyldna. Stjórnvöld vonast til þess að það þýði aukna einkaneyslu.

Forveri Macrons í embætti, Francois Hollande, hét því á sínum tíma að lækka skatta á fyrirtæki úr 33,3% í 28% fyrir árslok 2020. Stefna Macron er að að halda áfram á sömu braut og að skattar á fyrirtæki verði 25% árið 2022. 

Aukið fé fer í varnarmál og skattar á dísilbíla verða hækkaðir um 10%, í 7,6 evrusent lítrann. 

Spáð er 1,7% hagvexti í Frakklandi í ár en Macron hefur sett það sem helsta markmið sitt að draga úr atvinnuleysi í landinu. Það mælist 9,5% sem er miklu meira en til að mynda í Bretlandi og Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK