Frá þremur í tólf á sex árum

Mynd/Delta Air Lines

Fyrir sex árum buðu einungis þrjú flugfélög upp á ferðir til og frá Íslandi allt árið. Nú er gert ráð fyrir að tólf flugfélög fljúgi allt árið til og frá Keflavíkurflugvelli.

„Á síðustu mánuðum hefur heldur dregið úr vexti í brottförum erlendra ríkisborgara frá landinu. Síðan í maí sl. hefur mánaðarlegur vöxtur verið undir 20% milli ára og verður að fara allt aftur til haustsins 2013 til að finna minni vöxt.

Kann þetta að skýrast meðal annars af því að bolmagn greinarinnar til frekari vaxtar á háannatíma er takmarkað vegna skorts á innviðum. Næstu mánuðir munu leiða í ljós hvort einnig hægir á vextinum utan háannatímans,“ segir í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands sem kom út í morgun.

17% af heildarútlánum til ferðaþjónustunnar

Útlán til ferðaþjónustu nema tæplega 17% af heildarútlánum stóru viðskiptabankanna til atvinnufyrirtækja og hafa nú náð ámóta vægi og útlán til sjávarútvegs. Ársvöxtur útlána til ferðaþjónustu mældist 23% frá júlí 2016 til júní 2017.

„Að nokkru leyti kann útlánaaukningin að endurspegla nákvæmari skráningu. Útlán til greinarinnar nema um 9% af heildarútlánum bankanna til viðskiptavina.

Útlán til ferðaþjónustu vega því nokkuð í bókum viðskiptabankanna og útlánaáhætta þeim tengd gæti verið hlutfallslega meiri en sem nemur vægi þeirra. Komi til verulegs samdráttar í greininni gætu efnahagsaðstæður versnað og útlánatap aukist einnig í öðrum atvinnugreinum,“ segir í ritinu og er þar vísað í álagspróf Seðlabankans.

Mikil uppbygging er í ferðaþjónustunni og vöxtur greinarinnar á síðastliðnum árum hefur að miklu leyti byggst á mörgum smáum aðilum. Samfara hægari vexti í greininni á sl. mánuðum hafa samrunar átt sér stað. Fyrirtækjum í greininni gæti fækkað og þau sem eftir standa stækkað. Slíkir samrunar kalla oft á aukið lánsfé.

„Hingað til hefur vöxtur greinarinnar að hluta til verið fjármagnaður utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstaka fjárfestingu. Með færri og stærri aðilum í greininni kann mótaðilaáhætta bankanna að aukast,“ segir í ritinu Fjármálastöðugleiki.

Neysla á hvern ferðamann eykst en þeir dvelja skemur en áður

Verulega hefur dregið úr vexti í notkun erlendra greiðslukorta hér á landi á síðustu mánuðum, mælt í íslenskum krónum. Hefur vöxturinn milli ára nú mælst í eins stafs tölu í fjóra mánuði í röð, í fyrsta skipti síðan árið 2010.

„Það segir þó ekki alla söguna þar sem neysla á hvern erlendan ríkisborgara sem yfirgefur landið hefur aukist milli ára á sama tíma miðað við fast gengi og meðaldvalartími hér á landi hefur styst.

Styrking krónunnar hefur þannig dregið úr ruðningsáhrifum af vexti ferðaþjónustunnar á aðrar útflutningsgreinar. Vaxtarverkir greinarinnar eru þó enn til staðar og smitáhrifin til að mynda yfir á fasteignamarkaðinn eru augljós.

Ferðaþjónustan er að festa sig í sessi sem ein af lykilatvinnugreinum þjóðarbúsins. Hún hefur vaxið hratt á undanförnum árum en vísbendingar eru um að hægt hafi á vextinum.

Vöxturinn hefur haft talsverð ruðningsáhrif en þjóðarbúskapurinn leitar jafnvægis á ný um þessar mundir. Verulegar sveiflur í greininni, til að mynda miklar breytingar á framboði flugsæta til og frá landinu, gætu raskað þessu jafnvægi. Undir slíka atburði verður fjármálakerfið að vera búið,“ segir í ritinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK