Þar sem risar háloftanna verða til

Everett-verksmiðjan er stærsta bygging í heimi, mælt í rúmmáli.
Everett-verksmiðjan er stærsta bygging í heimi, mælt í rúmmáli. mbl.is/RAX

Það er tilkomumikil sjón þegar hin fræga 747-8-breiðþota hefur sig til flugs. Hún er í daglegu tali kennd við Júmbó en það er viðurnefni sem hún hlaut strax á framleiðslustigi um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Vélin er engin smásmíði og fullhlaðin vegur hún 442 tonn við flugtak. Hún er ein auðþekkjanlegasta vél sem framleidd hefur verið og því ræður „efra dekkið“ sem einkennir framhluta hennar.

Það er vegna fyrirhugaðrar framleiðslu þessarar vélar sem flugvélaframleiðandinn Boeing kynnti árið 1966 hugmynd sína um uppbyggingu risaverksmiðju í borginni Everett, sem staðsett er um 40 kílómetra norður af Seattle, stærstu borgar Washingtonríkis.

Það er kannski til marks um ótrúlega framtakssemi Bandaríkjamanna að tveimur árum eftir að hugmyndin var kynnt opinberlega rann fyrsta 747-þotan út úr fyrsta hluta verksmiðjubyggingar fyrirtækisins í Everett. Var sérhæfður hópur starfsmanna fenginn til að setja saman fyrstu 747-100-vélina á sama tíma og unnið var að uppbyggingu verksmiðjunnar.

Stærsta bygging í heimi

Fljótlega eftir að áætlanir um framleiðslu 747-vélarinnar tóku á sig mynd varð ljóst að byggja yrði gríðarstóra byggingu utan um framleiðsluna. Úr varð að Boeing reisti stærstu byggingu í heimi, mælt í rúmmáli. Þannig er heildarrúmmál Everett-verksmiðjunnar hvorki meira né minna en 13,3 milljónir rúmmetra en það gerir hana að langsamlega stærstu byggingu heims eftir þeim mælikvarða. Sé stærð hennar sett í samhengi við íslenskar byggingar þá er Smáralindin, eitt stærsta hús landsins, um 400 þúsund fermetrar og því er Everett-verksmiðjan ríflega 33 sinnum stærri en verslunarmiðstöðin í Kópavogi.

Sú bygging sem stendur Everett næst að rúmmáli er Mikla moskan í Mekka en rúmmál hennar er ríflega átta milljónir rúmmetra. Það kemur svo ekki á óvart að þriðja stærsta bygging heims skuli vera Jean-Luc Lagardère-verksmiðjan í Frakklandi en þar fer fram smíði hinnar gríðarstóru Airbus A-380-vélar sem í dag telst stærsta farþegaþota heims. Er skrokkur hennar byggður á tveimur hæðum, út í gegn, og getur rúmað yfir 800 farþega. Er sú verksmiðja tæpar sex milljónir rúmmetra á stærð.

Það segir hins vegar sína sögu um umfang framleiðslunnar hjá Boeing að sjötta stærsta bygging heims er önnur verksmiðja fyrirtækisins í Everett. Þar fer fram samsetning vængja 777- og 787-vélanna og telur byggingin 3,7 milljónir rúmmetra.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins heimsóttu verksmiðjuna á dögunum varð ekki hjá því komist að bera þekkta flökkusögu um verksmiðjuna undir Mike Murray, sem tók á móti hinum langt að komnu gestum. Snýr sagan að því að skömmu eftir að verksmiðjan var reist hafi orðið vart við umfangsmikinn leka úr lofti hennar. Þá hafi hins vegar komið í ljós að sökum stærðar byggingarinnar og hitamismunar milli gólfs og efri hluta hennar hafi myndast ský innanhúss og í raun tekið að rigna! Mike staðfesti það að frásögnin væri sönn en þessi staða kæmi ólíklega upp í dag þar sem gerðar hefðu verið sérstakar ráðstafanir um loftræstingu á staðnum. Hefur hin óvænta skýjamyndun án efa haft sín áhrif á það.

Mike benti þó á að í byggingunni er ekkert kyndikerfi. „Það hefur ekki reynst nauðsynlegt að kynda bygginguna með beinum hætti. Gríðarstórar hurðir eru stjórnbúnaðurinn. Í miklum hita er hér allt opið upp á gátt. Þegar kalt er í veðri lokum við byggingunni og hitinn frá starfsfólki og vélbúnaði dugar til að ná hitastigi upp í þægilegt og eðlilegt horf.“

Skrokkar vélanna eru settir saman á hvolfi. Ferlið er nokkuð …
Skrokkar vélanna eru settir saman á hvolfi. Ferlið er nokkuð tímafrekt. mbl.is/RAX

Tvöföld íbúatala Garðabæjar

Í Everett-verksmiðjunni eru leystar af hendi milljónir verkefna á hverjum einasta degi og með því móti þokast hinar gríðarstóru breiðþotur eftir framleiðslulínunni. Í dag eru þar framleiddar fjórar stærstu vélarnar sem fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum upp á. Það eru hin fyrrnefnda 747-Júmbóþota, 767, 777 (þrefalda sjöan) og nýjasta tækniundrið, 787-vélin, sem hlotið hefur nafnið Dreamliner sökum byltingarkenndrar hönnunar.

Og til þess að leysa allan þennan fjölda verkefna af hendi þarf margar vinnufúsar hendur. Í verksmiðjunni starfa því að jafnaði um 30 þúsund manns á þrískiptum vöktum. Starfsmannafjöldinn jafngildir því yfir tvöföldum íbúafjölda Garðabæjar og að jafnaði yfir daginn eru jafn margir einstaklingar að störfum í verksmiðjunni og skrásettir íbúar sveitarfélagsins suður af Reykjavík.

Hinn mikli fjöldi starfsfólks kallar á mikla innviði og af þeim sökum svipar verksmiðjunni að mörgu leyti til lítils þorps, fremur en hefðbundins vinnustaðar. Þar er rekið sjálfstætt slökkvilið og öryggisgæsla, nokkur veitinga- og kaffihús, gjafavöruverslun, heilsugæslustöð, leikskóli og íþróttamiðstöð svo eitthvað sé nefnt.

Eitt af síðustu verkum vélsmiðanna er að festa gríðarstóra hreyflana …
Eitt af síðustu verkum vélsmiðanna er að festa gríðarstóra hreyflana á vængi vélanna. mbl.is/RAX

Erfiður markaður fyrir fjögurra hreyfla vélar

Líkt og áður kom fram þykir 747 Júmbó-þotan einstök á margan hátt og það segir sína sögu um framleiðslu vélarinnar að hún er samsett úr sex milljónum hluta. Af þeim er um helmingur festingar og skrúfur af ýmsu tagi. Í eina vél þarf einnig að rekja og tengja um 250 kílómetra af rafmagnsvírum og leiðslum af fjölbreyttu tagi.

En þótt vélin búi yfir ákveðinni dulúð vegna sérstaks sköpulags og veki eftirtekt víðast hvar er framleiðsla vélarinnar í ákveðinni kreppu. Því ráða ýmsir þættir en einkum sú staðreynd að mun minni eftirspurn er eftir breiðþotum sem keyra á fjórum hreyflum. Í dag hefur tækninni fleygt fram og því er hægt að framleiða breiðþotur með mikla burðargetu sem keyra á tveimur hreyflum. Á það við m.a. um 767-, 777- og 787-vélarnar frá Boeing. Það var ekki reyndin á sjöunda áratugnum þegar 747 var sett í framleiðslu og því hafði vélin yfirburði yfir allar aðrar hvað varðaði fjölda farþega og burðargetu almennt.

Af þessum sökum hefur eftirspurn eftir 747-vélunum dregist verulega saman og sé litið yfir pantanabók Boeing kemur í ljós að engin ný pöntun hefur borist fyrirtækinu það sem af er þessu ári. Pantanabókin nær þó nokkur ár fram í tímann og því hefur fyrirtækið skilað nokkrum vélum af sér það sem af er ári.

Boeing er ekki eitt um að takast á við þetta vandamál. Hin volduga Airbus A380-vél sem tekin var í almenna notkun fyrir sléttum áratug hefur ekki reynst sá lukkugripur sem helsti og eini keppinautur Boeing vonaðist eftir. Hefur eftirspurn eftir þeirri vél verið langt undir væntingum.

Veðja á flutningamarkaðinn

Þrátt fyrir hinn breytta veruleika þar sem tveggja hreyfla vélar virðast að miklu leyti vera að taka yfir markaðinn sem fjögurra hreyfla vélarnar sátu einar að áður hefur Boeing ekki gefið 747-vélarnar alveg upp á bátinn og eru nú framleiddar um sex vélar á ári. Því ræður ekki síst flutningamarkaðurinn.

„Þessar vélar hafa reynst gríðarlega vel á þeim markaði. Margar þeirra sem nú eru í notkun hjá stærstu flutningafyrirtækjunum eru hins vegar komnar á aldur og gera má ráð fyrir að endurnýjunar verði þörf á komandi árum. Af þeim sökum höfum við m.a. haldið framleiðslunni áfram og viðhöldum með því verkþekkingu og slíku. Innan fárra ára gerum við ráð fyrir fjölgun pantana úr þessum geira,“ segir Mike sposkur á svip.

Og jafnvel þótt ekki yrði af því að framleiðslu 747 yrði haldið áfram er Boeing ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að flutningamarkaðnum því 767-vélinni sem fyrirtækið framleiðir einnig í Everett-verksmiðjunni er einungis beint að kaupendum á þessu tiltekna sviði flugrekstrar.

Fleiri magnaðar vélar

Þótt starfsemin í Everett-verksmiðjunni verði ætíð tengd Júmbó-þotunni órjúfanlegum böndum eru hinar vélarnar sem þaðan koma ekki síðri á margan hátt. Þannig er 777-vélin einnig stórbrotin, ekki síst þegar litið er til þess að hún flýgur á helmingi færri hreyflum en 747. „Þrennu-sjöan“ eins og hún er gjarnan nefnd manna í millum tók fyrst á loft árið 1994 og ári síðar var hún afhent fyrsta flugfélaginu sem veðjaði á hinn stóra skrokk.

Á meðan 747 getur borið (miðað við tvö farrými) allt að 410 farþega er burðargeta 777-300ER-vélarinnar litlu minni eða 396 farþegar. Þá er drægni 777-200LR, sem tekur 317 farþega í sæti, meiri en 747. Drífur hún allt að 15.800 km meðan 747 hefur drægni sem er um 1.000 km minni.

Ekkert slær þó lengd 747 við en í dag er hún 76,3 metrar að lengd. Lengri útgáfan af 777 er 2,5 metrum styttri.

Boeing framleiðir að jafnaði fimm vélar af þessari tegund í mánuði hverjum.

Draumur um loftin blá

Sú vél sem einna mestar vonir eru bundnar við á vettvangi Boeing er hin svokallaða Dreamliner-vél sem ber einkennistölurnar 787. Er hún ólík fyrri vélum Boeing að því leyti að skrokkur hennar er búinn til úr nautsterkri koltrefjablöndu sem gerir framleiðandanum kleift að hverfa frá hinu klassíska skrokklagi sem einkennt hefur nær allar stærri flugvélar frá upphafi. Með hinni nýju tækni gefst Boeing tækifæri til að auka innanrými vélarinnar til muna og til marks um byltingarkenndar breytingar sem fylgja 787 eru gluggar í farþegarými umtalsvert stærri en á hefðbundnum vélum. Þá þykir vélin ein sú sparneytnasta á markaðnum.

Hún er framleidd í þremur útgáfum og taka þær frá 242 farþegum og upp í 330 og mest getur drægni vélarinnar orðið 14.100 km. Boeing framleiðir um 12 vélar af gerðinni Dreamliner 787 í mánuði hverjum. Framleiðslan fer þó fram á tveimur stöðum, bæði í Everett eins og áður er getið en einnig í verksmiðju fyrirtækisins í Suður-Karólínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK