Heilsuprótein vígir verksmiðju í Skagafirði

Gestum gafst færi á að skoða verksmiðjuna.
Gestum gafst færi á að skoða verksmiðjuna. Ljósmynd/Heilsuprótein

Mikill mannfjöldi mætti á opnun verksmiðju Heilsupróteins á Sauðárkróki í gær. Heilsuprótein er samstarfsverkefni Mjólk­ur­sam­sölunnar og Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga, en fyrirtækinu er ætlað að fram­leiða verðmæt­ar afurðir úr mysu sem áður hef­ur verið fargað.

Í fyrri áfanga verk­smiðjunn­ar, sem var vígður í gær, verður fram­leitt prótein­duft úr mysu sem fell­ur til við osta­gerð á Vest­ur-, Norður- og Aust­ur­landi. Í síðari áfanga verk­smiðjunn­ar, sem áætlað er að kom­ist í gagnið inn­an tveggja ára, verður fram­leitt et­anól úr mjólk­ur­sykri osta­mys­unn­ar og einnig úr mysu sem fell­ur til við skyr­gerð.

Mikill mannfjöldi var mættur á opnunina.
Mikill mannfjöldi var mættur á opnunina. Ljósmynd/Heilsuprótein

Meðal gesta við formlega opn­un verk­smiðjunnar voru kúa­bænd­ur, stjórn­mála­menn og aðrir góðir gestir sem fengu m.a. að bragða á skyr­drykk sem inni­held­ur mysu­próteinið sem og kokteilum úr prufu­fram­leiðslu á hinu nýja et­anóli.

Karlakórinn Heimir söng við opnunina og meðal þeirra sem fluttu ræður af þessu tilefni voru þeir Bjarni Benediksson forsætisráðherra og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Miklar breytingar á stuttum tíma

Sagði Bjarni í ræðu sinni að íslenskur landbúnaður hafi gengið í gegnum miklar breytingar á stuttum tíma. Gífurleg framleiðniaukning hafi orðið og í skýrslu greiningardeildar Arion banka frá í fyrra sé aukningin talin vera um 39%.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði aukin verðmæti afurða vera lykilinn að …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði aukin verðmæti afurða vera lykilinn að framtíð landbúnaðarins. Ljósmynd/Heilsuprótein

„Framfarir eru miklar. Kúabúskapur hefur tekið stakkaskiptum. Byggð eru ný fjós. Líklega má telja að 20 – 30 fjós rísi nú á stuttum tíma í landinu. Það er þróttmikil atvinnugrein sem leggur í svo miklar framkvæmdir sem við fögnum hér í dag. Framkvæmdir og fjárfesting í nýjum húsum og búnaði og fjárfesting í þessari vinnslu sem við fögnum hér í dag – er einmitt sá grunnur sem við viljum leggja undir íslenskan landbúnað,“ sagði Bjarni. „Að hann sé á hverjum tíma í fremstu röð.  Að hann skipi í öndvegi velferð dýra og manna. Að hann geti sótt fram með nýsköpun og þróun.“ 

Aukin verðmæti afurða séu einmitt lykill að framtíð landbúnaðarins. „Sjávarútvegurinn hefur svo eftir er tekið, og um það sjáum við líka merki um hér í Skagafirði,“ sagði forsætisráðherra og kvað hann hafa tekið stakkaskiptum og margfaldað verðmæti afurða sinna. „Þann tón eigum við að slá fyrir íslenskan landbúnað. Ef okkur tekst vel til þá verða hefðbundnar afurðir að aukaafurðum og aukaafurðir að meginverðmætum.“

Gestum var boðið upp á veitingar, m.a. skyr­drykk sem inni­held­ur …
Gestum var boðið upp á veitingar, m.a. skyr­drykk sem inni­held­ur mysu­próteinið sem og kokteila úr prufu­fram­leiðslu á hinu nýja et­anóli. Ljósmynd/Heilsuprótein

Bygging á verksmiðju sem sameini að búa til aukin verðmæti úr afurðum bænda og að takast á við að lágmarka umhverfisáhrif af mjólkurvinnslu detti ekki af himnum ofan. Uppbygging á vinnslustöð fyrir aukaafurð mjólkurvinnslu sé afar athyglisverð í mörgum skilningi.

„Með því að þurrka mysuþykkni fellur til próteinduft sem býður heim frekari vinnslu og verðmætasköpun. Próteinvinnslan er því rétt að hefjast og vöruþróun hennar rétt að byrja.  Ég trúi að verðmætin sem þar falla til geti á stuttum tíma skipt afkomu kúabænda verulegu máli,“ sagði Bjarni.

Þingmenn voru meðal þeirra gesta sem mættu á opnunina.
Þingmenn voru meðal þeirra gesta sem mættu á opnunina. Ljósmynd/Heilsuprótein

Risaskref í umhverfismálum

Ari Edwald sagði í ræðu sinni gesti vera vitni að „nýsköpun, aukinni verðmætasköpun úr þeim hráefnum sem eru til staðar og risastóru skrefi í umhverfismálum.“

Flestir geri sér væntanlega grein fyrir því, að meiri verðmæti felast í íslenskum landbúnaði en mælt verður með reglustiku þröngrar nauðhyggju, sem horfi ekki til margfeldisáhrifanna og þess að starfsemi tengd landbúnaði er oft grunnurinn sem annað byggist ofan á. 

Hans mat sé að þó íslenskur landbúnaður hafi notið ríkisstuðnings og ákveðinnar tollverndar, líkt og í öllum nágrannaríkjum Íslands, þá hafi framlag hans til efnahagsstarfseminnar verið jákvætt, þegar heildarmyndin er skoðuð.

Ari Edwald sagði gesti vera vitni að „nýsköpun, aukinni verðmætasköpun …
Ari Edwald sagði gesti vera vitni að „nýsköpun, aukinni verðmætasköpun úr þeim hráefnum sem eru til staðar og risastóru skrefi í umhverfismálum.“ Ljósmynd/Heilsuprótein

Enn meiri nýsköpun í landbúnaði það sem koma skal

„Í allri matvælaframleiðslu stöndum við núna hvarvetna frammi fyrir nýjum áskorunum og nýjum tækifærum, vegna nýrrar þekkingar og þarfa heimsins fyrir matvæli, sem þurfa sífellt að næra fleiri og betur, en á sama tíma þarf framleiðsla matvælanna að skilja eftir sig minni og minni spor í umhverfinu. Enn meiri nýsköpun í landbúnaði er því það sem koma skal,“ sagði Ari.

Það sé staðreynd að verksmiðjan hefði ekki orðið að veruleika nema vegna þeirra lagaheimilda sem mjólkuriðnaðurinn hefur haft til þess að vinna saman að því verkefni að safna mjólk frá bændum á landsvísu og lækka kostnað við framleiðslu á mjólkurvörum.

„Mjólkuriðnaðurinn hefur búist við því að að því kæmi að kröfur yrðu gerðar til þessarar framleiðslu um að minnka magn þurrefna sem færu frá osta- og skyrgerðinni út í náttúruna. Og það hafði verið slegið á þann kostnað sem það hefði í för með sér að bregðast við slíkum kröfum. Það er skemmst frá því að segja að það hefði kostað mun meira að fjárfesta í hreinsibúnaði hjá þeim afurðastöðvum sem nú eru starfandi og hefur fækkað mikið vegna hagræðingar, heldur en nam fjárfestingu í þessari verksmiðju.“

Sagði hann heimild til samstarfs því hafa lagt grunninn að því að kröfur nútímans um betri umhverfisstjórnun væri hægt að leysa á viðskiptagrundvelli. 

„Samtíminn kallar eftir nýjum lausnum í umhverfismálum og landbúnaðurinn vill vera hluti af þeim. Í raun er þessi framleiðsla skýrt dæmi um það hvernig aukin áhersla á umhverfismál getur leitt til þess að hlutirnir eru hugsaðir upp á nýtt og nýjar leiðir finnast til verðmætasköpunar og til þess að nýta hráefnin til fulls. Slík þróun er ekki bundin við stærri verkefni á borð við þetta. Og það er virkilega gaman að fylgjast með þeirri grósku sem nú er í kringum landbúnaðinn með starfi margvíslegra frumkvöðla sem skapa ný verðmæti með sínu hugviti,“ sagði Ari í ræðu sinni.

Ljósmynd/Heilsuprótein
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK