Kom á fót sinni eigin íþróttalínu

Ljósmynd/Aðsend

María Lena Heiðarsdóttir Olsen er einstæð móðir á Egilsstöðum og hefur langað að hanna sína eigin íþróttavörulínu síðan hún var lítil stelpa. Fyrir mánuði kom fyrsta sendingin undir merkinu M Fitness Sport úr framleiðslu en hún ætlar að einblína á íslenska markaðinn áður en hún fer að huga að útrás. 

„Ég stofnaði M fitness fyrir fimm árum síðan í kringum einkaþjálfun en fyrir ári ákvað ég að byrja að hanna mína eigin línu,“ segir María Lena. „Þetta er eitthvað sem mig hefur langað að gera síðan ég var lítil stelpa.“

Vörulínan samanstendur af þremur gerðum af íþróttaleggings og einum toppi. Annar toppur er væntanlegur í nóvember og á næsta ári kynnir hún nýja línu. María Lena segir að það hafi verið strembið að koma línunni á laggirnar. 

„Manni fannst oft eins og maður væri að taka þrjú skref áfram en þá fór maður í raun tvö áfram og fimm aftur á bak. Það kom fullt af hindrunum og ástæðum til að hætta en nú er þetta loksins farið að borga sig.“

Ekkert eftir á lager

Sýnishorn af hönnun Maríu.
Sýnishorn af hönnun Maríu. Ljósmynd/MFitnessSport

Í bígerð er vefverslun en eins og stendur fer salan fram gegnum Facebook-síðu M fitness Sport. María er jafnframt með þrjá söluaðila; River á Egilsstöðum, Gallerí Ozone á Selfossi og Gallerí Ozone á Akranesi. Hún segir að salan hafi gengið vonum framar. 

„Það er ekkert eftir á lager hjá mér og það vantar líka í búðirnar þrjár en það er meira á leiðinni.“

Spurð hvort hún stefni í útrás segist hún ætla að einblína á markaðinn innanlands en aldrei sé að vita hvað taki svo við. 

„Það er strax kominn áhugi á merkinu erlendis frá en það er eitthvað sem ég kannski skoða seinna, aldrei segja aldrei. Það þarf að vanda valið vel þegar maður fer út með svona vöru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK