Fær ekki greiddan uppsagnarfrestinn

Frá sjósetningu skipasmíðastöðinni Cemre í Tyrklandi.
Frá sjósetningu skipasmíðastöðinni Cemre í Tyrklandi. Ljósmynd/Fáfnir

Steingrímur Bjarni Erlingsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og eigandi Fáfnis Offshore hf., fær ekki greiddar um 10 milljónir króna sem hann taldi sig eiga inni hjá fyrirtækinu eftir að ráðningasamningi hans var rift, en stjórn félagsins taldi hann hafa brotið trúnaðarskyldu sína sem framkvæmdastjóri og ekki látið af hendi gögn sem hann hafði undir hendi og tengdust rekstri félagsins. Í gagnsök í málinu var Steingrímur jafnframt sýknaður af bótakröfu félagsins vegna meints tjóns af því að hafa ekki skilað umræddum gögnum.

Steingrími var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu í desember árið 2015, en hann hafði sjálfur stofnað Fáfni með það að markmiði að þjónusta olíuiðnaðinn. Var fyrsta skiptið smíðað árið 2013 og síðar hófust framkvæmdir við annað skip. Á þeim tíma varð aftur á móti verðfall í olíuiðnaðinum og reis ágreiningur milli Steingríms og nýrra eigenda sem höfðu komið í félagið. Lauk þeim með því að Steingrími var sagt upp.

Steingrímur Erlingsson var stofnandi Fáfnis.
Steingrímur Erlingsson var stofnandi Fáfnis. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Við uppsögnina var óskað eftir því að hann myndi skila greiðslukorti, síma og fartölvu sem voru í eigu félagsins og tilgreint var um í ráðningasamningi hans.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur varð Steingrímur við því að skila greiðslukorti en ekki fartölvu og síma og ítrekaði stjórn félagsins við hann að skila þeim hlutum. Þá lét félagið skoða tölvupóstsamskipti Steingríms eftir að hafa látið hann vita að slíkt yrði gert. Þegar tölvupósturinn var opnaður kom í ljós að enginn tölvupóstur var til staðar sem var fyrir uppsagnardagsetninguna og kom fram í máli hýsingaraðila að Steingrímur hafi látið eyða öllum tölvupóstum sem hýstir voru hjá fyrirtækinu.

Var sérstaklega getið um það í ráðningarsamningi að félagið eigi að afrita allan tölvupóst og hafi heimild til að lesa hann ef grunur vakni um alvarlega misnotkun.

Stjórnin ákvað svo að rifta ráðningasamningi Steingríms í febrúar 2016 þrátt fyrir sex mánaða uppsagnarfrest og fékk hann ekki greidd laun eftir það, upp á 1,6 milljónir á mánuði.

Dómurinn féllst á að háttsemi Steingríms, við þær aðstæður sem uppi voru, hafi falið í sér  „skýrt og stórfellt brot á trúnaðarskyldu hans sem framkvæmdastjóra“ félagsins. Var félaginu því heimilt að rifta ráðningasamningi hans og hætta að greiða honum samkvæmt uppsagnarfresti.

Aftur á móti féllst dómurinn ekki á skaðabótakröfu fyrirtækisins þar sem farið var fram á 13 milljóna bætur vegna þeirra gagna sem félagið taldi Steingrím ekki hafa skilað fyrirtækinu. Taldi dómurinn ekki hafa komið fram verðmæti gagnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK