Boða víðtækar uppsagnir

AFP

Móðurfélag Actavis, ísraelska lyfjafyrirtækið Teva Pharmaceuticals mun á næstu tveimur árum fækka starfsmönnum fyrirtækisins um 14 þúsund. Það er um fjórðungur allra starfsmanna  fyrirtækisins á heimsvísu.

Í frétt á vef Haaretz kemur fram að gert er ráð fyrir að um helmingur starfsmanna Teva í Ísrael muni missa vinnuna. Alls eru starfsmenn Teva í Ísrael 6.800 talsins. Ástæða uppsagnanna er hagræðing í rekstri í þeirri von að draga úr rekstrarkostnaði.

Uppsagnirnar eru liður í áætlun sem nýr forstjóri Teva, Kåre Schultz, er að kynna en hann var ráðinn til Teva fyrir sex vikum. Hann á að koma rekstri Teva á réttan kjöl að nýju.

Haaretz greinir frá því að Schultz hafi átt fund með forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, vegna málsins í dag. Í tilkynningu frá skrifstofu forsætisráðherra kemur fram að  Netanyahu hafi lýst því yfir við Shultz að hann hefði áhyggjur af stöðu fyrirtækisins og að hann hefði beðið Shultz um að draga úr skaðanum sem aðgerðirnar hafa á starfsfólk Teva í Ísrael.

Teva eignaðist Actavis í byrjun ágúst í fyrra. Í byrjun september kom fram á mbl.is að ekki stæði til að draga úr starf­semi Acta­vis og Med­is, dótt­ur­fé­laga Teva á Íslandi, að svo stöddu en Teva kann­ar þó mögu­leika á að selja Med­is og er því í hönd­um vænt­an­legra kaup­enda að gera ráðstaf­an­ir varðandi framtíðarfyr­ir­komu­lag ef sal­an geng­ur eft­ir. Eng­ar viðræður um kaup eru hafn­ar enn sem komið er. 

Hjá Actavis á Íslandi og Medis vinna í dag rúmlega 300 manns. Eins og er hefur ekkert verið tilkynnt um breytingar í starfsemi félagsins á Íslandi, aðrar en þær sem hafa komið fram áður, samkvæmt upplýsingum frá samskiptasviði Teva á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK