Segir fasteignasölum hafa verið hótað

Eigandi fasteignasíðunnar Procura.is segir að Eftirlitsnefnd fasteignasala hafi gróflega misbeitt valdi sínu gegn vefsíðunni, meðal annars með því að hóta fasteignasölum sviptingu réttinda og kæru, fyrir að eiga í viðskiptum við Procura. 

G. Andri Bergmann rekur sína hlið á málinu í pistli á Procura.is. Þar segir hann að á haustdögum hafi Procura gert tilraun til að að einfalda samanburð á störfum fasteignasala með því að aðstoða neytendur við að leita tilboða hjá fasteignasölum.

„Það líkaði flestum, en ekki öllum og þó að margir fasteignasalar lýstu ánægju með framtakið þá höfðu fulltrúar 6 af 141 fasteignasölu samband og lýstu andstöðu við þessa upplýsingagjöf. 4 af þessum 6 eiga fulltrúa í stjórn eða varastjórn Félags fasteignasala.“

G. Andri skrifar að tveimur dögum eftir að Procura hafi boðið fasteignasölum að gera tilboð í sölumeðferð eigna hafi Eftirlitsnefnd fasteignasala skrifað langt bréf þar sem fullyrt var að þjónusta Procura bryti gegn fjölmörgum lögum. Ef vefsíðu og starfsstöð fyrirtækisins væri ekki lokað fyrir klukkan 16:00 daginn eftir yrði sýslumaður beðinn um að skerast í leikinn. 

„Auðvitað var þessari glórulausu aðför mótmælt, en mótmælunum blés Eftirlitsnefndin af öxlinni eins og hverju öðru kuski með þeim orðum að hún þyrfti nú ekki að taka til greina einhver andmæli eða sinna einhverju smotterí eins og rannsóknarskyldu.“

Rekstrargrundvellinum kippt undan

Enn fremur segir G. Andri að hálfum mánuði síðar hafi nefndin sent bréf á alla löggilta fasteignasala landsins og þeim tilkynnt að ef þeir ættu í viðskiptum við Procura væri líklegt að þeir hinir sömu misstu réttindi sín og yrðu jafnframt kærðir til lögreglu.

Þar með var lokað fyrir alla frekari möguleika Procura að afla sér tekna samkvæmt áætlunum sem fyrirtækið og forsvarsmenn þess höfðu unnið að um langan tíma. Rekstrargrundvöllurinn var brostinn þar sem eðlilega þorði enginn fasteignasali að leggja atvinnuréttindi sín að veði þó þeim líkaði vel nýjung Procura.

Umboðsmaður Alþingis krefst svara

G. Andri gagnrýnir að einn af þremur nefndarmönnum sé framkvæmdastjóri Félags fasteignasala. „Þegar lögum um sölu fasteigna var breytt árið 2015 [...] var sett á stofn nefnd, Eftirlitsnefnd fasteignasala. [...] Stjórnvöld breyttu lögum til þess að koma í veg fyrir að fasteignasalar hefðu eftirlit með sjálfum sér en þegar einn af þremur nefndarmönnum er launaður fulltrúi hagsmunasamtaka fasteignasala þá er ljóst að tilgangi laganna hefur ekki verið náð að öllu leiti.“

Málið er nú hjá umboðsmanni Alþingis að sögn G. Andra og er eftirlitsnefnd gert að svara fyrir málið fyrir 2. janúar. Í samtali við mbl.is staðfestir Þórður Bogason, formaður Eftirlitsnefndar fasteignasala, að málið sé til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis en hann segir að nefndin muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK