„Wow, í alvöru?“

Elsa flaug ekki til Danmerkur með Wow air í gær.
Elsa flaug ekki til Danmerkur með Wow air í gær.

Elsa María Jakobsdóttir vandar Wow air ekki kveðjurnar á Facebook-síðu sinni. Hún fékk ekki að innrita sig í flug til Kaupmannahafnar í gær, þar sem hún býr, vegna þess að hún var skráð í flugið sem Elsa María María en ekki Elsa María Jakobsdóttir eins og í vegabréfi. Hún fékk miðann ekki endurgreiddan og þurfti að kaupa dýrt flug á síðustu stundu heim með Icelandair.

Elsa reyndi að ræða við starfsmann Wow og sýna fram á að þetta væri augljós innsláttarvilla og að hún væri sami farþegi og skráður var fyrir miðanum. Starfsmaður í innritun Wow viðurkenndi að það væri augljóst enda væri hún skráð sem Jakobsdóttir fyrir greiðslunni og tölvupóstfangi en það skipti engu. Á sama tíma heyrði Elsa aðra starfsmenn Wow ræða sín á milli að flugið væri löngu yfirbókað.

„Mér var neitað í tvígang um að fá að tala við yfirmann í innritun Wow og þegar ég reyndi að ná nafninu á starfsmanninum í innrituninni hringdi hún í öryggisverði,“ segir Elsa við mbl.is en í stað endurgreiðslu var henni boðið að kaupa sæti í sömu vél á 79.000 krónur.

„Þegar búið var að kalla til öryggisverði gafst ég upp því þetta var allt með svo miklum ólíkindum að ég óttaðist að uppákoman gæti spunnist út í eitthvað ennþá fáránlegra, Mér sárnaði auðvitað að það væri á svona ógnandi hátt sem fyrirtækið kýs að ljúka svona máli,“ bætir Elsa við.

Hún kveðst hafa orðið vitni að því nokkrum sinnum hjá öðrum flugfélögum hvernig tekið er á málum þegar vandamál koma upp með nafn ferðalangs þegar augljóslega er um sama farþega að ræða t.d. þegar Þ verður  th, dóttir verður son eða millinöfn sem samræmast ekki vegabréfi.

„Hjá öðrum flugfélögum hef ég séð slík tilvik leyst án nokkurra vandamála. Þetta snýst auðvitað um þjónustulund, almenna skynsemi og vilja til að rækta viðskiptasamband við kúnnann til framtíðar,“ segir Elsa og bætir við að Wow virðist ekki leggja áherslu á þau gildi.

„Mér finnst eins og það sé reynt að koma manni í örvæntingafulla stöðu þar sem maður rífur upp kortið í ráðaleysi. Ég segi bara Wow í alvöru?“ spyr Elsa. Eftir að hún hafði samband við þjónustuver Wow hefur flugfélagið boðist til að endurgreiða flugvallarskattinn.

Starfsmenn fylgdu öryggisreglum

„Okkur þykir þetta auðvitað ömurlegt,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air. Hún segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi þarna farið eftir öryggisreglum en ekki sé leyfilegt að breyta meira en tveimur eða þremur stöfum ef um augljósa prentvillu er að ræða í bókun.

„Hún gerði sjálf mistök og bókaði sig vitlaust,“ segir Svanhvít. Hún bætir við að líklega hafi verið um misskilning að ræða hjá Elsu varðandi farþegafjölda vélarinnar en samkvæmt Svanhvíti var vélin ekki full.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK