Sænsk fyrirtæki fordæma brottvísun starfsmanna

Forstjóri Ericsson segir að fyrirtækið vilji gjarnan halda þróunarstarfsemi sinni …
Forstjóri Ericsson segir að fyrirtækið vilji gjarnan halda þróunarstarfsemi sinni áfram í Svíþjóð og að meðferð útlendingamála verði að vera fyrirsjáanleg og skýr. AFP

Forstjórar stærstu fyrirtæka Svíþjóðar, m.a. H&M og Ericsson, fordæma brottvísun sérhæfðra starfsmanna úr landi á tímum þar sem skortur er á vinnuafli, m.a. í tæknigeiranum.

Í bréfi sem um þrjátíu forstjórar birta í Dagens Industri segjast þeir að brottvísun útlendinga skaði viðskiptalífið og að sænsk fyrirtæki verði að geta ráðið fólk erlendis frá. Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru Stefan Persson, forstjóri H&M og Borje Ekholm, forstjóri Ericsson.

„Við getum ekki búist við því að verkfræðingar, forritarar og aðrir sérfræðingar yfirgefi heimalönd sín og eigi svo á hættu að vera vísað frá Svíþjóð af ófyrirséðum ástæðum,“ skrifa þeir.

Útlendingastofnun Svíþjóðar hefur verið gagnrýnd fyrir að neita að framlengja atvinnuleyfi útlendinga og vísa þeim úr landi af umdeildum ástæðum.

Hussein Ismail, líbanskur verkfræðingur hjá líftæknifyrirtæki sem hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni og börnum á nú brottvísun yfir höfði sér. Skýringin er sögð tengjast því að hann skar niður laun sín í þrjá mánuði árið 2015 til að halda fyrirtækinu á floti. Samkvæmt sænskum lögum, sem eiga að vernda útlendinga sem vinna í landinu, má vísa fólki aftur til heimalandsins ef laun þeirra eru undir lágmarkslaunum. 

Í öðrum málum hefur útlendingastofnunin ákveði að vísa útlendingum úr landi sem hafa ekki tekið fullt orlof.  

Stofnunin tjáir sig ekki um einstök mál en að almennt talað sé farið að sænskum lögum þegar brottvísun er ákveðin. „Við förum að lögum,“ segir Lisa Bergman, talsmaður stofnunarinnar, í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Jenny Linden, sem fer fyrir fjárfestingafélagi, segir brottvísanirnar „fáránlega sápuóperu“ sem veiki samkeppnishæfni sænsks viðskiptalífs.

Forstjóri Ericsson segir að fyrirtækið vilji gjarnan halda þróunarstarfsemi sinni áfram í Svíþjóð og að meðferð útlendingamála verði að vera fyrirsjáanleg og skýr.

Í desember var að einhverju leyti brugðist við þessari gagnrýni er ákveðið var að sýna meiri sveigjanleika í málum sem þessum. „Það er enn ekki nóg að gert. Bindið enda á þessa sorgarsögu og gerið það núna,“ skrifuðu forstjórarnir í bréfi sínu.

 Vilji Stokkhólmur halda forystu sinni sem vagga sprotafyrirtækja vantar þar til starfa um 60 þúsund sérfræðinga á næstu tveimur árum, að því er Johan Attby, stofnandi samfélagsmiðilsins Fishbrain, segir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK