Stjórnendasvikum stórfjölgaði eftir afnám hafta

Dæmi um tilraun til stjórnendasvika.
Dæmi um tilraun til stjórnendasvika. Skjáskot

Eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin hafa svokölluð stjórnendasvik færst í aukana en í þeim felst að fjársvikamenn villa á sér heimildir og þykjast vera stjórnendur í fyrirtæki sem svikatilraunin beinist gegn. 

„Fjársvikamaðurinn gefur sig út fyrir að vera stjórnandi og sendir skilaboð á starfsmann þar sem hann þrýstir á starfsmanninn að framkvæma greiðslu í flýti,“ segir Hákon Åkerlund, sérfræðingur í öryggismálum hjá Landsbankanum. „Þetta er bragðvísi (e. social engineering). Það er verið að þrýsta á fólk að gera eitthvað sem það gerir venjulega ekki.

Hákon mun fjalla um slíka glæpi á morgun á fræðslufundi Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins um forvarnir gegn netglæpum. Fundurinn verður haldinn á 1. hæð Húss atvinnulífsins og stendur frá kl. 8.30 til 10.

Hákon segir að tæknilega séu fjársvik af þessu tagi ekki flókin þar sem auðvelt sé að safna upplýsingum um netföng og nöfn stjórnenda á netinu. „Og þegar fólk sér nafn stjórnandans birtast í tölvupóstinum áttar það sig kannski ekki á að netfangið sé rangt.“

Athygli vekur að íslenskan sem er notuð í stjórnendasvikum hefur batnað verulega með tímanum og rekur Hákon það til þess að Google Translate sé orðin öflug þýðingarvél. 

„Þegar við urðum fyrst vör við þessa glæpi var íslenskan mjög léleg en hún hefur skánað til muna. Fjársvikamennirnir læra líka að einhverju leyti á málið og geta þannig sett saman betri texta en áður.“

Dæmi um stjórnendasvik. Smellið á myndina til að stækka hana.
Dæmi um stjórnendasvik. Smellið á myndina til að stækka hana. Skjáskot

Minnst nokkur tilfelli á viku

Hákon segir að mikil aukning í stjórnendasvikum hafi orðið eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin og að erlendir bankar hafi varað við því. Tíðnin sé orðin minnst nokkur tilfelli á viku og stundum nokkur tilfelli á dag. 

„En við fáum ekki allar upplýsingarnar um þessi mál vegna þess að sum fyrirtæki vilja helst ekki tala um þetta. Ég held að tíðnin sé mun meiri en við gerum okkur grein fyrir.“

Þá segir Hákon að bankarnir séu saman í öflugu samstarfi við lögregluna til þess að taka á þessum vanda. Þegar upplýsingar um stjórnendasvik berist sé haft eftirlit með því að greiðslur berist ekki til fjársvikamanna frá öðrum fyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK