Stofnandi Toys R Us látinn

Charles P. Lazarus, stofnandi Toys R Us.
Charles P. Lazarus, stofnandi Toys R Us.

Charles Lazarus, stofnandi leikfangakeðjunnar Toys R Us, er látinn, 94 ára að aldri. Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt að keðjan myndi hætta starfsemi.

Lazarus hóf að selja leikföng árið 1957 í stórum verslunum eftir að hann kom heim af vígvöllum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í síðustu viku var ákveðið að setja Toys R Us í gjaldþrot og loka öllum verslunum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Var það gert vegna „ófyrirséðra“ ástæðna, að því er kom fram í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu frá keðjunni vegna andláts Lazarus segir að heilsu hans hafi hrakað að undanförnu og að allir sem störfuðu með honum væru þakklátir fyrir jákvæða orku hans, eldmóð og umhyggju fyrir börnum.

Er Lazarus sneri heim eftir hermennsku í síðari heimsstyrjöldinni breytti hann reiðhjólaverkstæði föður síns í húsgagnaverslun þar sem seld voru húsgögn fyrir börn. Nafn verslunarinnar var Children's Supermart og var bókstafnum R snúið öfugt í nafninu. Hann vildi með þessu láta líta út eins og barn hefði skrifað nafnið.

Þetta öfuga R var svo einnig að finna í vörumerki leikfangakveðjunnar, Toys R Us.

Lazarus hætti störfum fyrir keðjuna árið 1994 og allar götur síðan hefur hún barist í bökkum, að því er segir í frétt BBC.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK