Landsbankinn hafði betur gegn KSÍ

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Knattspyrnusamband Íslands höfðaði gegn Landsbankanum. Krafðist KSÍ endurgreiðslu frá Landsbankanum upp á 340 milljónir króna. 

Málið snerist um viðskiptasamning um reikningslánalínu sem KSÍ gerði við Landsbanka Íslands árið 2006. Með samningnum var KSÍ heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn átti viðskipti með. 

Frá því samningurinn var gerður og fram til 30. júlí 2007 óskaði KSÍ átta sinnum eftir að fá greiddan út tiltekinn lánshluta á grundvelli samningsins. Í öllum tilvikum var fjárhæð væntanlegs láns tilgreind í íslenskum krónum. Í febrúar 2007 greiddi KSÍ tvívegis inn á skuld sína við bankann og með lánsbeiðni í ágúst 2007 óskaði KSÍ eftir nýjum lánshluta að tiltekinni fjárhæð sem tilgreind var í svissneskum frönkum og japönskum jenum, en með þeim lánshluta voru allir eldri lánshlutar greiddir upp. 

Með nýrri lánsbeiðni til Landsbankans í desember 2008 óskaði KSÍ eftir lánshluta að tiltekinni fjárhæð sem tilgreind var í svissneskum frönkum og japönskum jenum, en með beiðninni var eldra lánið framlengt og áföllnum vöxtum bætt við höfuðstól þess.

Greiddi KSÍ upp skuld sína við bankann í desember 2009 en taldi sig hafa ofgreitt þar sem lánin þau hefðu í raun verið veitt í íslenskum krónum og bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við lög um vexti og verðtryggingu. Krafðist félagið endurgreiðslu á því sem ofgreitt hefði verið. 

Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að fyrir lægi í málinu að svissneskir frankar og japönsk jen hefðu verið tilgreind í lánsbeiðninni. Hefði lánið sem Landsbanki Íslands veitti á þeim grundvelli verið í erlendum gjaldmiðlum. Þegar Landsbankinn hefði tekið yfir skuldbindingu KSÍ hefði lánið því ótvírætt verið í erlendum gjaldmiðlum.

Var KSÍ gert að greiða Landsbankanum 1,5 milljónir króna í málskostnað. 

Sjá dóm Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK