Sinna ekki þörf eftir smærri íbúðum

Uppbygging við Kársnesið í Kópavogi.
Uppbygging við Kársnesið í Kópavogi. mbl.is/Hari

Byggingargeirinn virðist ekki vera að sinna þeirri þörf eftir smærri íbúðum að fullu og vekur það spurningar um hvort byggingar á of stórum íbúðum eigi eftir að koma í bakið á byggingarfyrirtækjum þegar að sölu kemur.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem byggir á tölum Þjóðskrár. Samkvæmt tölum Þjóðskrár var fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu óbreytt milli mars og apríl. Verð á fjölbýli lækkaði óverulega en verð á sérbýli hækkaði um 0,2%.

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 4,6% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 7,1%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 5,4% og bendir hagfræðideildin á að árshækkunin hafi ekki verið minni síðan um mitt ár 2011.

„Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í apríl hækkað um 0,9% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 4,5% næstu sex mánuði þar á undan,“ segir í Hagsjá. 

Hagfræðideildin bendir á að á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafi meðalstærð nýrra seldra íbúða verið 104 fermetrar en stærð eldri íbúða 99 fermetrar. Þessi munur hafi verið mun meiri á fyrstu fjórum mánuðum ársins í fyrra þegar nýjar seldar íbúðir voru að meðaltal 124 m2 og eldi íbúðir 98 m2.

„Þessi stærðarmunur kemur ekki heim og saman við þá skoðun að mesta eftirspurnin á markaðnum sé eftir minni íbúðum. Byggingargeirinn virðist ekki vera að sinna þeirri þörf að fullu og því kemur sú spurning upp hvort byggingar á of stórum íbúðum eigi eftir að koma í bakið á byggingarfyrirtækjum þegar að sölu kemur.“

Samkvæmt tölum Þjóðskrár yfir fyrstu fjóra mánuði áranna 2017 og 2018 voru nýjar íbúðir 9,5% af viðskiptum á árinu 2017 og 10,5% í ár.

„Hlutfall nýrra íbúða er því enn tiltölulega lítið og hefur því ekki svo mikil áhrif á heildarmyndina. Nýjar íbúðir voru reyndar 11,8% dýrari en eldri íbúðir á árinu 2017 og 12,6% dýrari í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK