Barátta við „samlokusala“

Sigmar Vilhjálmsson.
Sigmar Vilhjálmsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kaupsýslumaðurinn Sigmar Vilhjálmsson mun mæta Skúla Gunnari Sigfússyni, oft kenndum við Subway, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sigmar nefnir Skúla „samlokusala“ í færslu á Facebook í gærkvöldi og segir farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við Skúla.

Á vef Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að í dag fari fram aðalmeðferð í máli Sjarms og Garms ehf. og Sigmars Vilhjálmssonar gegn Stemmu hf.

Vísir greindi fyrst frá þessu

Í frétt mbl.is nýverið kom fram að Sig­mar hafi selt all­an hlut sinn í rekstri Keilu­hall­ar­inn­ar í Eg­ils­höll og Ham­borg­arafa­brikk­unni. Jó­hann­es Stef­áns­son í Múlakaffi keypti hlut hans, en Sig­mar mun áfram stýra Keilu­höll­inni og veit­ingastaðnum Shake & Pizza út þetta ár. Hann seg­ist til­bú­inn að skoða nýja bransa í fram­hald­inu.

Sig­mar hafði átt í Keilu­höll­inni ásamt Jó­hann­esi Ásbjörns­syni, Snorra Marteins­syni, Jó­hann­esi í Múlakaffi og Guðmundi Auðuns­syni. Var eign­ar­haldið í gegn­um fé­lagið Gleðip­inn­a ehf. Sig­mar var svo eig­andi að Ham­borg­arafa­brikk­unni í gegn­um Nauta­fé­lagið ehf. ásamt þeim Jó­hann­esi Ásbjörns­syni, Snorra og Skúla Gunn­ari Sig­fús­syni í Su­bway.

„Á morgun mun ég mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur eftir 3ja ára baráttu við samlokusala hér á landi. 

Þessi 3 ár hafa verið gríðarlega erfið og kostnaðarsöm. Ég hef valið að tjá mig aldrei um þessi deilumál opinberlega, þrátt fyrir mikinn áhuga blaðamanna á þessu máli. Ég hef litið á þetta mál sem mál sem á heima fyrir dómstólum og það er loksins komið þangað. 
Það verður því mikill léttir að koma þessu máli loksins fyrir dómara sem munu meta þetta mál út frá þeim gögnum sem liggja fyrir (samtals 190 fylgiskjöl). 

Þessi 3 ár sem deilur okkar hafa staðið yfir, þá hefur meðeigandi minn lagt á sig mikla vinnu og fjármuni við að draga úr mér kjarkinn, tennurnar og fjármuni. 
Ég mun líklega aldrei fá til baka þá fjármuni sem ég hef lagt í þetta mál, enda er þetta ekki rekið áfram af mér vegna peninga. Þetta mál er spurning um "prinsipp" og mannorð. Þetta mál er spurning um það hvort maður ætli að láta vaða yfir sig og láta snúa sig niður í krafti peninga og hótanna [sic] um ærumeiðingar, eða standa í lappirnar og láta menn svara fyrir gjörðir sínar. 

Margoft hef ég leitað sátta hjá þessum meðeiganda mínum, en ávallt verið vísað frá. 
Margoft hef ég horft í spegil og spurt sjálfan mig að því, hvort þetta sé raunverulega þess virði. 

Þetta hefur tekið mikið á alla í kringum mig, fjölskyldu og vini.
En svarið hefur alltaf á endanum verið JÁ.
Já, vegna þess að hvernig sem þetta mál mun fara fyrir dómstólum, þá er það opinbert hvað gerðist og hvernig. Því það er[u] ekki alltaf lög yfir þau brot og þá siðlausu viðskiptahætti sem gögn málsins munu varpa ljósi á. 
Já, vegna þess að ef ég hefði lagt niður vopnin, þá hefði meðeigandinn minn nuddað mér uppúr því og sagt vinum sínum: "Hvað sagði ég ykkur ekki?" 
Já, af því að ég hefði séð eftir því alla ævi að fá ekki úr þessu skorið og að hafa látið undan þessum manni. 
Já, af því að ég ætla ekki að kenna börnum mínum að það sé í lagi að láta svíkja sig, svívirða og niðurlægja án þess að maður standi á rétti sínum. 
Það er tvennt sem ég trúi á í lífinu. 
1) Hver er sinnar gæfu smiður. 
2) Komdu fram við náungan[n] eins og þú vilt að hann komi fram við þig. 
Góðar stundir.“

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK