Íslandsbanki býst við minni hagvexti en Seðlabankinn

Þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir árið 2018 til ársins 2020 kom út í gær, en bankinn spáir 2,6% hagvexti á þessu ári og 2,4% á því næsta. Þetta er heldur lægri spá en kom fram í ritinu Peningamálum, sem gefið var út í síðustu viku, en þar er spáð 3,3% hagvexti í ár og 3% á næsta ári.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að í nýrri spá bankans sé búist við heldur meiri hagvexti en í fyrri spá sem gefin var út í janúar. Hann bætir þó við að það sé töluvert hægari vöxtur fram undan í íslenska hagkerfinu en hefur verið í hinni löngu hagsveiflu sem hófst snemma á áratugnum.

„Við viljum kalla þetta mjúka lendingu eftir vaxtarskeið,“ segir Jón Bjarki. „Það sem við sjáum og mun einkenna komandi misseri er að það eru heimilin og hið opinbera sem drífa áfram vöxtinn að miklu leyti.“

Þjóðhagsspá Íslandsbanka segir hægari vöxt í ferðaþjónustu eina helstu skýringuna á minni útflutningsvexti, þó að hún muni áfram bera uppi aukningu útflutnings. Útlit er þó fyrir að vöxtur bæði út- og innflutnings verði hægari í ár og næstu ár en verið hefur. Innflutningur mun engu að síður aukast hraðar en útflutningur. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður því neikvætt.

Viðskiptaafgangur að hverfa

Eftir nokkur ár af myndarlegum viðskiptaafgangi dró nokkuð úr honum í fyrra, en hann mældist 3,7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Íslandsbanki spáir því að viðskiptaafgangur verði 3% af VLF í ár og 1,3% á næsta ári. Árið 2020 spáir bankinn hins vegar að hann verði í grennd við jafnvægi og að fátt bendi til þess að jöfnuðurinn snúist til verulegs viðskiptahalla á næstu árum. Jón Bjarki segir að tímabil myndarlegs viðskiptaafgangs sé liðinn og að hann verði horfinn undir lok áratugarins. „Þá verður komið jafnvægi á utanríkisviðskipti, hvorki afgangur né halli. Það má því segja að þetta sé gjaldið sem við greiðum fyrir það að halda áfram og gefa í hvað varðar umsvif hins opinbera og í íbúðarfjárfestingu. Við höfum svigrúm núna til þess að taka beygjuna í þessa átt og við sjáum fyrir okkur að þetta gerist án þess að það leiði til mikilla sviptinga á verðbólgu, gengi krónunnar eða í hagvaxtarþróuninni.“

Þegar Jón Bjarki er spurður út í það við hverju megi búast á næstu árum svarar hann að lífið muni ganga sinn vanagang, eftir mikla uppsveiflu, og búast megi við að næsta ár og árið eftir það verði svipað og þetta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK