Áhaldahúsið víkur fyrir íbúðabyggð

Unnið er að því að rífa niður áhaldahús Kópavogs.
Unnið er að því að rífa niður áhaldahús Kópavogs. mbl.is/Árni Sæberg

Unnið er að niðurrifi áhaldahúss Kópavogs þessa dagana, en á reitnum er áformað að 43 íbúða hús rísi á komandi misserum. Er um að ræða síðasta byggingarreitinn í fyrsta uppbyggingaáfanga Glaðheimasvæðisins í Kópavogi, en á reitnum verða samtals 10 hús með 326 íbúðir.

Áhaldahúsið flutti þó ekki langt, heldur fluttist öll starfsemin í næstu götu í maí á þessu ári. Síðan þá hefur verið unnið við að gera húsið og lóðina klára fyrir niðurrifið sem nú er hafið á gamla húsinu, sem stendur við Álalind 1. Húsið sem kemur í staðinn fær þó allt annað húsnúmer og verður Álalind 18-20. Verður nýja húsið 4-5 hæðir auk kjallara og bílageymslu.

Á Glaðheimasvæðinu eru skilgreindir þrír uppbyggingareitir. Hefur fyrrnefndur reitur verið kallaður reitur tvö, en reitur eitt og þrjú eru vestan megin við þá uppbyggingu sem nú á sér stað. Ekki hafa þeir reitir verið auglýstir enn þá.

Allir byggingareitir á reit 2, sem nú er í uppbyggingu, voru auglýstir árið 2015, en áhaldahúsið var ekki auglýst fyrr en í nóvember í fyrra. Var það þá bæði auglýst til niðurrifst og sem byggingarréttur. Hæsta boð kom frá Byggingarfélaginu Bestla upp á rúmlega 500 milljónir.

Nýtt áhaldahús bæjarins er þó ekki langt í burtu, eða …
Nýtt áhaldahús bæjarins er þó ekki langt í burtu, eða í næstu götu. Í stað gamla hússins kemur 43 íbúða hús á 4-5 hæðum. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogs, segir í samtali við mbl.is að samkvæmt skipulagi sé reiknað með að á reitum eitt og þrjú verði byggðar aðrar 200 íbúðir auk talsverðs magns verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Þegar Glaðheimasvæðið verður að fullu uppbyggt verða þar því rúmlega 500 íbúðir auk verslunar- og þjónusturýmis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK