Freistuðust í torfærur í fyrsta prufuakstri

Ísar Torveg í sínum fyrsta prufuakstri á dögunum.
Ísar Torveg í sínum fyrsta prufuakstri á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum alveg í skýjunum,“ segir Ari Arnþórsson sem stendur á bakvið fyrsta fjöldaframleidda íslenska bílinn, Ísar Torveg, sem fór í sína fyrstu prufukeyrslu á dögunum. „Ég er búinn að vera með þetta í höfðinu og síðan í höndunum í meira en áratug. Svo er þetta orðið að bíl og það kemur í ljós að hann gerir það sem maður vonaðist til. Maður getur eiginlega ekki orðið ánægðari en það.“

Að sögn Ara gekk aksturinn vonum framar. Raunar var ætlunin aðeins að keyra bílinn út af verkstæðinu og taka nokkrar myndir. „Við torfæruðumst aðeins, sem var eiginlega óvart. Við ætluðum rétt að skutla honum út og taka myndir. Svo auðvitað freistast maður til þess að prófa aðeins meira. Þetta er kærkomin staðfesting á því að það er rétt sem við höfum verið að hanna og smíða.“

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Ara var hjá honum bílaverkfræðingur sem hefur verið yfirhönnuður hjá tveimur stórum bílaverksmiðjum. „Hann verður þessa viku að fara fyrir hönnunina og ráðleggja. Á næstu tveimur árum stöndum við fyrir stífri vinnu við að gera þetta verkefni að fyrirtæki sem býður upp á samgöngulausnir víða um heim.“

Stenst alþjóðlega staðla og fer á heimsmarkað

Ari hefur gætt þess að bíllinn standist alla aðþjóðlega staðla og reglur svo hann geti farið á markað um allan heim, en Ísar Torveg býður upp á nýja lausn í samgöngum og getur nýst víða um heim að sögn Ara. „Segjum að þú búir í þorpi í Síle og það er langt til næstu borgar. Það tekur allan daginn að hossast á litlum hraða í einhverjum Benz-kálfi. Til þess að leysa það og halda áfram að nota kálfinn þarf að leggja milljarða í framkvæmdir á vegum. Það sem við erum að bjóða upp á er ferðalag frá A til B með farþega í helmingi meiri þægindum, helmingi hraðar og engu þarf að eyða í vegina.“

Fyrir um áratug hönnuðu Ari og félagar hans farartæki með sama markmið sem leit heldur út eins og rúta og fór yfir hálendið á góðum hraða og ekki vantaði upp á þægindin. „Á leiðinni inn í Öskju sat fólk og var að fá sér kaffi í bolla. Sá bíll er enn í fullu fjöri, en af því hann leit út eins og rúta vildi fólk borgar eins og í rútu.“

„Það sem við erum að gera núna er að bjóða upp á sama „concept“ nema með annað útlit. Það var alveg magnað að upplifa þegar hann var kominn út undir bert loft. Þetta er ekki líkt neinu sem við höfum nokkurn tíma séð. Það gefur okkur betri möguleika, kaupendurnir geta haft meiri tekjur af farartæki sem er svona útlits.“

Framundan hjá Ísar er að fara yfir allt með fyrrnefndum verkfræðingi til þess að gera betur í næstu prótótýpu. Næsta prótótýpa verður smíðuð með fullkomnum tölvugögnum úr gagnagrunni með tölvulíkani bílsins. Sá verður 750 hestöfl og er ætlaður fyrir „menn sem eru að fara út í eyðimörkina með vinum sínum.“

Bíllinn er ólíkur nokkru öðru ökutæki.
Bíllinn er ólíkur nokkru öðru ökutæki. Ljósmynd/Aðsend

„Í kjölfarið er ráðgert að smíða fimm bíla sem eru á milli þess að vera tilraunabílar og framleiðslubílar. Þeir verða smíðaðir af sömu aðlinum og munu framleiða bílana og á sama hátt, en fara í hendurnar á aðilum sem eru þátttakendur á síðasta stigi prófana,“ segir Ari.

Ari segir verkefnið hafa undið upp á sig úr því að vera ætlað til þess að bæta lífið fyrir íslenska jeppaferðaþjónustuaðila. „Það eru engir svona bílar til í heiminum sem taka tíu og upp í tuttugu manns, fara um allt með full þægindi og geta líka skroppið í óperuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK