„Þolinmæðin er að þrotum komin“

mbl.is/Arnþór

Á fimmta tug eftirlaunaþega Lífeyrissjóðs bankamanna var samankominn í Landsbankanum í Austurstræti í morgun til þess að afhenda fulltrúum bankans áskorun þess efnis að bank­inn gangi til samn­inga við sjóðinn vegna forsendubrests, ella farið málið fyrir dómstóla.

Ásdís Gunnarsdóttir eftirlaunaþegi og fyrrverandi starfsmaður Landsbankans, afhenti fulltrúa Landsbankans áskorunarbréf með undirskriftum eftirlaunaþega sjóðsins. 

Hún sagði að fyrir 20 árum, þegar ríkistrygging á sjóðnum var afnumin, hefði verið fullyrt að sjóðsfélagar bæru ekki skaða af. Árið 2015 hefði lífeyririnn hins vegar verið skertur um tæplega 10% og nú stefni í frekari skerðingar. 

„Það eru fáir að borga inn í hann og margir að taka út fyrir utan það að reikniformúlan sem farið var eftir var röng. Það var miðað við að við færum á eftirlaun 65 ára en flest okkar fara á eftirlaun 60 ára. Það liggur í augum uppi að bankinn hefði þurft að borga mismuninn inn í sjóðinn svo að það kæmi ekki svona mikill halli á hann,“ sagði Ásdís. „Þolinmæðin er að þrotum komin. Það stefnir í dómsmál en við viljum frekar semja.“

Ásdís Gunnarsdóttir afhendir Hreiðari Bjarnasyni áskorunarbréfið.
Ásdís Gunnarsdóttir afhendir Hreiðari Bjarnasyni áskorunarbréfið. mbl.is/Arnþór

Kjartan Sigurgeirsson, eftirlaunaþegi og fyrrverandi starfamaður Reiknistofu bankanna, hélt einnig stutta tölu. Hann sagði að áskorunin sýndi vilja hópsins til að forða hugsanlega langvinnum málarekstri fyrir dómstólum. 

En fari svo að málið verði þvingað í þann farveg af bankanum munum við hvergi víkja og krefjast fullrar leiðréttingar á þeim forsendubresti sem óumdeilt er að hafi orðið í útreikningum,“ sagði Kjartan. „Einlæg von okkar er sú að hjá þessu verði komist og sest verði að samningum og þeim lokið sem fyrst.“

Segir kröfuna ekki lögvarða

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, tók við áskorunarbréfinu fyrir hönd bankastjóra og gerði hópnum grein fyrir afstöðu bankans.

„Við áttum okkur á því að staða sjóðsfélaga er snúin. Það hefur verið álit bankans að Landsbankinn sé ekki í ábyrgð fyrir skuldbindingum lífeyrissjóðs bankamanna. Af þeim sökum höfum við litið svo á að þar sem bankinn er ekki í ábyrgð sé ekki lögvarin krafa af hálfu lífeyrissjóðsins á hendur bankanum.“

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, gerði grein fyrir afstöðu …
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, gerði grein fyrir afstöðu bankans. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK