Mesti tekjuvöxtur í sögu STEFs í fyrra

Jakob Frímann Magnússon, fráfarandi formaður STEFs.
Jakob Frímann Magnússon, fráfarandi formaður STEFs. mbl.is/Sigurður Bogi

Hreinar tekjur STEFs, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, jukust um rétt tæplega 15,3% milli áranna 2016 og 2017, en þetta kemur fram í ársreikningi sambandsins. Hreinar tekjur í fyrra voru rétt rúmlega 610 milljónir króna en voru 530 milljónir árið áður.

Bætt hljómritunarumhverfi

Jakob Frímann Magnússon, fráfarandi formaður STEFs, segir að rekja megi þessa miklu aukningu í tekjum STEFs til þess að umhverfið í kringum hljómritun og höfundarrétt hafi breyst mikið til hins betra á síðastliðnum árum. „Það eru gleðitíðindi að við erum fyrsta landið í heiminum til þess að bjóða 25% endurgreiðslu af kostnaði vegna framleiðslu hljómrita, líkt og gert er í kvikmyndaiðnaðinum. Það er auðvitað gífurlegur hvati til aukningar á hljómritum.“

Jakob talar einnig um að STEF hafi barist fyrir því að höfundarréttur verði jafngildur eignarrétti og að skattlagning stefgjalda verði færð í fjármagnstekjuskatt. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt sé að breytingu á þessu.

Uppfærð gjaldskrá IHM

Annar orsakavaldur þess að tekjur STEFs jukust svona mikið er að IHM, Innheimtumiðstöð gjalda, uppfærði gjaldskrá sína. IHM fær tekjur sínar við innheimtu gjalda af ýmsum varningi sem notaður er til upptöku á hljóði eða mynd. Upphaflega var þetta gjald sett á kassettur, plötur og geisladiska, en með tilkomu nýrrar tækni til þess að taka upp og fjölfalda hljómrit hefur gjaldskrá IHM verið uppfærð til þess að bregðast við því. Tekjur vegna úthlutunar frá IHM, vegna eintakagerðar til einkanota, fóru úr 324 þúsund krónum árið 2016 í 38 milljónir króna í fyrra, sem er í kringum 116-földun.

Jakob segir þetta mesta tekjuvöxt á milli ára í sögu STEFs. Hann lætur nú af stjórnarformennsku eftir 12 ára vist og segist afar sáttur við frábæran afrakstur á þessu 70. afmælisári samtakanna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK