Smíða þurfi 43.000 flugvélar á 20 árum

Uppfærð spá Boeing gerir ráð fyrir því að heimurinn þurfi …
Uppfærð spá Boeing gerir ráð fyrir því að heimurinn þurfi 43.000 nýjar flugvélar á næstu 20 árum. AFP

Framleiða þarf 43.000 nýjar flugvélar á næstu tveimur áratugum, samkvæmt Dennis Muilenberg, aðalframkvæmdastjóra bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing.

Hann kynnti þessa uppfærðu spá fyrirtækisins fyrir blaðamönnum í London í dag, en Farnborough-flugsýningin hefst í Bretlandi á morgun.

„Við höldum áfram að sjá mikinn vöxt á flugmarkaðnum,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Muilenberg, sem bætti við að hann teldi að heimurinn þyrfti 43.000 farþegaflugvélar á næstu tuttugu árum, sem er meira en flugfélagið gerði ráð fyrir í fyrra.

Airbus býst við enn meiri vexti

Helsti keppinautur Boeing, evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus, kynnti framtíðarmat sitt í síðustu viku og þar á bæ eru væntingarnar um vöxt flugbransans enn meiri.

Airbus telur nefnilega að smíða þurfi 48.000 flugvélar á næstu 20 árum, þar sem spurn eftir flugi aukist sökum vaxandi hagkerfa og lággjaldaflugfélaga.

Sú tala er samkvæmt frétt AFP meira en tvöfaldur fjöldi allra farþegaflugvéla sem nú eru í notkun.

Flugrisarnir tveir, Boeing og Airbus, mæta með sínar nýjustu flugvélar á flughátíðina í Farnborough, en þar munu fyrirtækin bítast um að selja flugfélögum afurðir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK