Færri nýta sér innanlandsflugið

Á fyrri helmingi ársins fækkaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli um tæplega …
Á fyrri helmingi ársins fækkaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli um tæplega 5 af hundraði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á fyrri helmingi ársins fækkaði farþegum á innanlandsflugvöllunum um ríflega 8 þúsund að því er fram kemur í frétt á ferðavefnum Túristi.is. Beint flug breskrar ferðaskrifstofu frá Bretlandi til Akureyrar nú í vetur vegur upp á móti samdrættinum.

Rúmlega 377 þúsund farþegar fóru um flugvelli landsins á fyrri helmingi þessa árs, ef Keflavíkurflugvöllur er frátalinn. Eru það rúmlega 8 þúsund færri farþegar, en fóru um flugvellina á sama tímabili í fyrra.

Á fyrri helmingi ársins fækkaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli um tæplega 5 af hundraði, en á Egilsstöðum var samdrátturinn minni. Fleiri fóru hins vegar um flugstöðina á Akureyri en á sama tíma árið áður og er fjölgunin til komin vegna leiguflugs breskrar ferðaskrifstofu. Þannig flugu 3.525 farþegar milli Akureyrar og Bretlands fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt tölum frá breskum flugmálayfirvöldum.

Hefðu þessar ferðir ekki komið til þá hefði þróunin á flugstöðinni á Akureyri verið neikvæð í ár líkt og í Reykjavík og Egilsstöðum að því er segir í frétt Túrista.

Farþegafjöldi á öðrum flugvöllum er ekki sundurliðaður í tölum Isavia og því sést t.a.m. ekki hve margir nýttu sér ferðir Ernis til Sauðárkróks, en tilraun flugfélagsins til að halda úti á áætlunarferðum þangað frá Reykjavík var hætt nú í sumarbyrjun.

Einnig þarf að hafa í huga er tölur yfir innanlandsflug eru skoðaðar, að Air Iceland Connect hefur frá því í ársbyrjun í fyrra boðið upp á beinar ferðir frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar fyrir eru að koma úr eða á leið í millilandaflug. Flugfélagið hefur gert hlé á þessum áætlunarferðum í sumar en mun hefja þær á ný í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK