Afkoma Landsnets á pari við áætlun

Hagnaður Landsnets á fyrri hluta ársins var um 1,7 milljarðar …
Hagnaður Landsnets á fyrri hluta ársins var um 1,7 milljarðar króna. mbl.is/​Hari

Hagnaður Landsnets á fyrri hluta þessa árs nam 16,2 milljónum Bandaríkjadala, eða um 1,7 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 10,5 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður var 29,2 milljónir dala samanborið við 29,1 milljón í fyrra.

Tekjur félagsins jukust um 5 milljónir dala miðað við fyrra ár, en rekstrargjöld hækkuðu um sambærilega upphæð og var rekstrarhagnaðurinn því álíka milli ára. Námu rekstrartekjur samtals 76,7 milljónum dala, samanborið við 71,5 milljónir dala í fyrra. Rekstrargjöldin voru 47,5 milljónir í ár, samanborið við 42,4 milljónir í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld voru 9,1 milljón dala og lækkuðu úr 16 milljónum dala í fyrra. Skýring þess er að í fyrra var gengistap metið í árshlutareikningnum upp á 6,4 milljónir dala, en er ekkert núna. Heildarskuldir Landsnets hafa lækkað og eru nú 503,3 milljónir dala, eða um 56 milljarðar, samanborið við 514,3 milljónir dala í fyrra.

Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 41,0% samanborið við 39,6% í lok ársins 2017. Eigið fé í lok tímabilsins nam 350,0 milljónum dala, eða 37,2 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 337,0 milljónir dala í lok árs 2017.

Í tilkynningu frá félaginu segir að afkoma fyrirtækisins sé samkvæmt áætlun og haft er eftir Guðlaugu Sigurðardóttur fjármálastjóra að endurfjármögnun félagsins sé farin að skila árangri. Þá stefni í að framkvæmdakostnaður ársins verði lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en tafir á leyfisveitingum valda því að stór verkefni eru að tefjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK