Leigutekjur Reita 5,6 milljarðar kr. á fyrri hluta árs

Árshlutareikningur Reita var gefinn út í dag.
Árshlutareikningur Reita var gefinn út í dag. Ljósmynd/Reitir

Stjórn Reita fasteignafélags hf. samþykkti árshlutareikning fyrir fyrri helming árs á fundi í dag. Í árshlutareikningnum kemur m.a. fram að leigutekjur hafi numið tæplega 5,6 milljörðum sem er aukning um 5,6% frá síðasta ári. Hagnaður árshelmingsins var 2,3 milljörðum minni en á fyrri árshelmingi 2017.

Hagnaður fyrri árshelmings 2018 var samtals 322 milljónir króna. Til samanburðar var hagnaðurinn 2.692 milljónir á fyrri hluta síðasta árs. „Matslækkun fjárfestingareigna setur svip sinn á hagnað fyrir og eftir tekjuskatt og er samanburður á milli ára erfiður vegna þess,“ segir í kynningu Reita.

Fjárfestingareignir lækkuðu um 69 milljarða

Leigutekjur Reita jukust um 5,6% milli ára eða um 296 milljónir króna í samanburði við fyrri hluta síðasta árs og námu samtals 5.578 milljónum króna. Þar af voru hreinar leigutekjur 4.041 milljón króna.

Fjárfestingareignir Reita eru metnar á tæplega 135 milljarða króna og heildareignir á rúmlega 140 milljarða króna. Virði fjárfestingareigna lækkaði um 69 milljarða króna á fyrri árshelmingi 2018.

„Áhrif stórfelldra hækkana fasteignagjalda endurspeglast í neikvæðri matsbreytingu eigna á öðrum ársfjórðungi. Óvarlegt er að reikna með því að leigumarkaðurinn taki að fullu við þessum stórfelldu hækkunum á opinberum gjöldum til allrar framtíðar,“ er haft eftir forstjóra Reita, Guðjóni Auðunssyni, í tilkynningunni.

Kaupa Vínlandsleið

Í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir því að kaup á Vínlandsleið ehf. gangi í gegn 1. september. „Umfang kaupanna er 5.900 millj. kr. en um er að ræða rúmlega 18.000 fermetra af vönduðu húsnæði í fullri útleigu, að mestu leyti til opinberra aðila,“ er haft eftir Guðjóni þar.

Gert er ráð fyrir því að aukning rekstrarhagnaðar vegna kaupanna verði um 350 milljónir króna á ársgrundvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK