Áhættan sem fylgir flugrekstri óljós

Ashok Bhatia, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi (fyrir miðju), ásamt …
Ashok Bhatia, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi (fyrir miðju), ásamt fulltrúum sendinefndarinnar á fundinum í morgun. mbl.is/Hari

Aukin samkeppni í flugsamgöngum og hátt olíuverð eru meðal nýrra áskorana sem flugþjónusta á Íslandi stendur frammi fyrir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegri úttekt sendinefndar AGS á Íslandi á íslenskum efnahagsmálum sem kynnt var í dag.

Ashok Bhatia, aðstoðaryfirmaður efnahagsþróunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og formaður sendinefndar AGS hér á landi, segir nefndina að mestu leyti ánægða með þær breytingar sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi frá síðustu úttekt sem gerð var í apríl í fyrra. „Hægst hefur á hagvexti á Íslandi eftir vöxt síðustu ára sem var að mestu ósjálfbær og líkur á því að hagkerfið á Íslandi ofhitni fara minnkandi,“ segir Bhatia í samtali við mbl.is.  

Hafa ekki gert sérstaka úttekt á íslensku flugfélögunum

Hann undirstrikar að þrátt fyrir að þróun í efnahagsmálum sé almennt jákvæð er mikilvægt að veita nýjum áhættuþáttum athygli og ber þar hæst aukna samkeppni í flugsamgöngum. AGS hefur ekki gert sérstaka úttekt á íslensku flugfélögunum en Bhatia segir að gerð hafi verið heildarúttekt á ferðamannaiðnaðinum hér á landi í fyrra. „Við metum flugrekstur sem áhættuþátt en það á eftir að koma í ljós hversu stór hann verður,“ segir Bhatia.

Fleiri áhættuþættir sem taka þarf mið af að mati nefndarinnar eru aukin spenna í alþjóðaviðskiptum sem gæti haft neikvæð áhrif á útflutningsverð á áli og öðrum varningi. Þá eykur óvissa tengd samningaviðræðum um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu líkurnar á veikari útflutningseftirspurn frá einum af stærstu mörkuðum Íslands og gæti flækt frekar fiskveiðisamvinnu á Norður-Atlantshafi.

Allt eftirlit með fjármálageiranum sameinað

Meðal forgangsatriða sem nefndin leggur til er að sameina allt eftirlit með fjármálageiranum, þrautavaralánveitingar og verkefni skilavalds í Seðlabanka Íslands.

„Við minntumst á þennan möguleika á síðasta ári og jafnvel árið þar áður,“ segir Bhatia. Að hans mati krefst fjármálastöðugleiki traustrar reglugerðar og eftirlits með fjármálageiranum. „Eftirlitsaðilinn þarf að vera sjálfstæður og hann þarf að búa yfir björgum og fjármagni til að hafa nauðsynlegt vald til reglugerðar. Á sama tíma má kerfið ekki vera of flókið með mismundandi stofnanir að gera svipaða hluti,“ segir Bhatia. Nefndin leggur til að fjármálaeftirlit verði fært inn í Seðlabankann og með því megi lágmarka annmarka í breytingarferlinu.   

Aðgerðir í stað umræðna

Í haust eru liðin tíu ár frá alþjóðlegu fjármálahruni og segir Bhatia að á þeim tímamótum sé tilefni til að grípa til aðgerða í stað umræðna, meðal annars með því að sameina allt eftirlit með fjármálageiranum.

Aðspurður hvað íslensk stjórnvöld og Íslendingar almennt geti lært af hruninu segir Bhatia að margt hafi verið vel gert hér á landi í uppbyggingu efnahagslífs og nefnir hann því til stuðnings að það hafi verið merkilegt að Poul M. Thomsen, nú­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Evr­ópu­deild­ar Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, hafi valið að vera í Reykjavík um þarsíðustu helgi, þegar tíu ár voru liðin frá hruni Lehman Brothers-bankans.

Bhatia vísar einnig í erindi Thomsens sem hann hélt í Hörpu 15. september. Þar fjallaði hann meðal annars um ýmsar aðgerðir sem gripið var til hér á landi. „Til dæmis þegar kom að gjaldeyrishöftum, sem voru ekki viðurkennd á þeim tíma, en í dag er það ekki deiluefni á alþjóðavísu þegar gripið er til slíkra hafta þegar ófremd­ar­ástand rík­ir í efna­hags­mál­um,“ segir Bhatia.

Hann segir að ýmsan lærdóm megi draga af því hvernig Ísland tókst á við fjármálahrunið. „Frumleg nálgun var tekin þegar kom að endurreisn bankanna. Bankakerfið sem við sjáum í dag er mun smærra í sniðum og betur fjármagnað og stjórnað og minni áhætta er tekin í rekstri bankanna,“ segir Bhatia, sem segist jafnframt vera þeirrar skoðunar að margir góðir hlutir hafi gerst hér á landi frá hruni. „En við vitum að hlutir geta breyst hratt í efnahagsmálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK