Ronaldo-áhrifin

Cristiano Ronaldo fagnar marki í svörtum og hvítum búningi Juventus.
Cristiano Ronaldo fagnar marki í svörtum og hvítum búningi Juventus. AFP

Það var rökrétt fyrir ítalska knattspyrnufélagið Juventus að kaupa portúgalska knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo á 100 milljónir evra frá Real Madrid jafnvel þótt hann sé 33 ára gamall og líklega kominn af sínu besta skeiði. Af hverju? Vegna Ronaldo-áhrifanna.

Kaupin rædd í þaula

„Þetta var í fyrsta skipti sem bæði viðskipta- og íþróttahliðin á Juventus tóku höndum saman og mátu kosti og galla [kaupa],“ sagði Andrea Agnelli, forseti ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, sem einnig ber kauphallarauðkennið JUVE í ítölsku kauphöllinni en félagið var skráð á markað árið 2001.

„Tækifærið til þess að kaupa Ronaldo var metið í þaula [...] og það var rökrétt, innan sem utan vallar,“ sagði Andrea Agnelli, forseti Juventus, við Financial Times.

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Í grein Financial Times er fjallað um fjárhagslegt mikilvægi Ronaldo og að það sé hugsanlega meira en hið fótboltalega. „Innan vallar þarf Juventus ekki á Ronaldo að halda til þess að ráða ríkjum í ítölskum fótbolta enda hefur liðið unnið deildina sjö sinnum í röð. En utan vallar eru Ronaldo-áhrifin til staðar.

Hlutabréfaverð tvöfaldaðist

Hlutabréfaverð í Juventus hækkaði aðeins við orðróminn um að sá portúgalski væri á leið til félagsins og ársmiðaverð hækkaði um 30%. Eru allir 29.300 miðarnir að sjálfsögðu seldir. Treyja með nafni hans kostar svo rúmar 20 þúsund krónur sem er með því hæsta í Evrópu sem fólk getur greitt fyrir treyju. Stuðningsmenn flykktust auk þess að frá öllum heimshornum að sjá Ronaldo spila sinn fyrsta heimaleik og sjónvarpsstöðvar biðu komu hans dögum saman í Tórínó.

Fjárfestingar á markaði virðast einnig vera sammála um verðmæti Ronaldo. Gengi hlutabréfa í félaginu hefur meira en tvöfaldast frá því að tilkynnt var um kaupin í júlí. Félagið er nú metið á rúma 1,5 milljarða evra, eða um 195 milljarða íslenskra króna.

Stuðningsmenn Juventus með treyjur Cristiano Ronaldo.
Stuðningsmenn Juventus með treyjur Cristiano Ronaldo. AFP

„Ef þetta verður rétt framkvæmt getur Juventus hagnast verulega af þessari fjárfestingu,“ segir Gareth Balch, stofnandi íþróttamarkaðsrannsóknafyrirtækisins Two Circles.

Agnelli tók við stjórnartaumunum á rekstri Juventus árið 2010. Hann vill gera Juventus að fremsta knattspyrnufélagi í heimi; bæði fótboltalega með því að vinna stærstu keppnirnar, og rekstrarlega, með því að öðlast mestar tekjur. Hann telur að Ronaldo sé vel til þess fallinn að ýta þeirri framvindu af stað.

„Við hyggjumst, einn af öðrum, varða þá leið að verða númer eitt,“ segir Agnelli við Financial Times.

Juventus er aftur á móti nokkuð á eftir liðum eins og Manchester United, Real Madrid, Barcelona, og Bayern München, fjárhagslega séð, en öll hafa þau 150-250 milljónum evra meira í árstekjur en Juventus.

Félög á borð við Manchester City, Paris Saint Germain og Chelsea hafa einnig meira tekjustreymi. En félagið telur að Ronaldo geti hjálpað á þessum vettvangi og að styrktaraðilar muni greiða hærri summur fyrir að tengjast félaginu og leikmanninum. Real Madrid og Galactico"-stefnan hjá Spánarrisanum er frægt dæmi um sömu hugsun.

Annað nærtækt dæmi væri að horfa til Manchester United en þar varð Ronaldo stjarna. Juventus hefur farið langt í Evrópukeppnum á síðasta ári og fékk þess vegna meiri tekjur en United-liðið árið 2017 í sjónvarpsréttindatekjur en þrátt fyrir það voru heildartekjur Manchester-liðsins vegna viðskiptasamninga 200 milljónum hærri. Þangað horfir Juventus.

Kostnaðurinn 85 milljónir á ári

En áætlun Juventus er ekki áhættulaus. Ronaldo er 33 ára gamall og nálgast endann á ferlinum og það er augljóst mál að ef hann spilar verr mun það hafa áhrif á liðið. Auk þess var kappinn ekki ókeypis.

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Juventus greiddi 100 milljónir evra fyrir hann sem greiddar verða á tveimur árum auk 5 milljóna evra í uppeldisbætur. Þá fær Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldo, 12 milljónir evra í sinn hlut. Launakostnaður Ronaldos er 50 milljónir evra á ári eftir skatt samkvæmt fréttum.

Endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefur metið það sem svo að Juventus muni í heild borga 340 milljónir evra fyrir Ronaldo, eða um 85 milljónir á ári fyrir þjónustu Portúgalans.

Á tólf mánaða tímabili, frá júlí 2017 til júní 2018, var tap Juventus 19,2 milljónir evra og tekjur félagsins 505 milljónir evra en sérfræðingar telja að kaupin á Ronaldo muni á endanum vinna á helsta fjárhagslega veikleika félagsins, að spila á Ítalíu, en deildin þar í landi má muna fífil sinn fegurri. Samkvæmt Deloitte fá lið í ensku úrvalsdeildinni 3,3 milljarða á tímabili í sjónvarpstekjur, á Spáni fá liðin 2 milljarða en á Ítalíu fá liðin 1,4 milljarða. Juventus er í raun að veðja á að áhugi heimsins á deildinni muni vakna með því að sjá Ronaldo í deildinni,“ segir í greininni en þar er þó tekið fram að sjónvarpsréttindasamningar séu læstir út tímabilið 2020-21.

Forráðamenn Juventus segja að treyjusala nálgist sögulegt met. Og þá er félagið einnig í viðræðum við Adidas um endurnýjum á samningi við framleiðslu á búningum félagsins. Þar hjálpa stjörnuáhrif Ronaldo einnig enda er kappinn einn vinsælasti maður í heimi á samfélagsmiðlum en samanlagt nema fylgjendur hans 330 milljónum á Facebook, Twitter og Instagram. Juventus fékk auk þess 10 milljónir fylgjenda í júlí einum, mánuðinn sem Ronaldo var tilkynntur sem leikmaður liðsins.

Greinina um Ronaldo í heild sinni má lesa hér.

Cristiano Ronaldo umkringdur spenntum stuðningsmönnum Juventus í júlí.
Cristiano Ronaldo umkringdur spenntum stuðningsmönnum Juventus í júlí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK