Óska eftir fundi áður en kosið verður

Starfsemi United Silicon í kísilverksmiðjunni í Helguvík var stöðvuð í …
Starfsemi United Silicon í kísilverksmiðjunni í Helguvík var stöðvuð í fyrra. Stakksberg ehf. heitir félagið sem keypti starfsemina af þrotabúi United Silicon. Stakksberg er í eigu Arion banka. mbl.is/RAX

Stakksberg ehf. vill funda með bæjarstjórn Reykjanesbæjar áður en hún samþykkir að synja fyrirtækinu um að vinna tillögu að deiliskipulagi á kísilverinu í Helguvík. Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem keypti starfsemina af þrotabúi United Silicon. 

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði beiðni Stakksbergs ehf. á fundi í gær. Sú var svo hljóðandi:

„Verkís ehf. óskar fyrir hönd Stakksbergs ehf. að skipulags- og matslýsing verði tekin til meðferðar [...] Jafnframt er óskað eftir heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við ofangreinda skipulags og matslýsingu [...]“

Á þriðjudaginn verður tillaga ráðsins um að hafna þessu tekin fyrir í bæjarstjórn og þar með skorið úr um, hvort fyrirtækið fái yfir höfuð að vinna tillögu til deiliskipulags.

Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs ehf., hefur óskað eftir skýringum á fundi við bæjarstjórn, segir hann í samtali við mbl.is. Hann vill funda á mánudaginn, til að sjá hvað mönnum þótti vanta upp á tillöguna. Hans von er sú að félagið fái ráðrúm til að bæta úr því sem þarf.

„Það getur vel verið að það sé bara mjög eðlileg ástæða fyrir þessari niðurstöðu ráðsins. Við viljum bara skoða það með bæjarstjórninni,“ segir Þórður. Hann segir félagið ekki vera að taka afstöðu til úrskurðarins, heldur einfaldlega bara að óska eftir upplýsingum. „Við ætlum að reyna að vinna þetta af heilindum á faglegum grundvelli. Í ljósi þess óskuðum við eftir ástæðum fyrir niðurstöðunni.“

Drög að matsáætlun félagsins fyrir umhverfismat voru kynnt í sumar og bárust á annað hundrað athugasemda við hana. Þar bar hæst, að fólki þótti kísilverksmiðjan standa of nálægt byggð. „Við horfum til fordæma fyrir svona rekstri á kísilverum, eins og í Noregi, þar sem þau hafa verið rekin inni í miðbæjum sveitarfélaga í friði við samfélagið,“ segir Þórður. „Við gerum okkur vonir um að koma starfseminni á aftur og við ætlum okkur að binda þannig um hnútana, að starfsemin fari fram í friði við samfélagið.“



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK