Bílaheimurinn leikur á reiðiskjálfi

Stjórnarformaður Renault-Nissan-Mitsubishi, Carlos Ghosn.
Stjórnarformaður Renault-Nissan-Mitsubishi, Carlos Ghosn. AFP

Einn þekktasti kaupsýslumaður heims, Carlos Ghosn, stjórnarformaður bílaframleiðandans Nissan, hefur verið handtekinn í Japan en hann er sakaður um fjármálamisferli. 

Í fréttum NHK og annarra fréttastöðva í Japan kemur fram að Ghosn hafi verið handtekinn í kjölfar þess að hafa verið yfirheyrður af saksóknurum. Hann er sakaður um ýmis brot, þar á meðal að hafa logið til um laun sín. 

AFP

Í yfirlýsingu frá Nissan kemur fram að stjórnarformaðurinn hafi verið til rannsóknar hjá fyrirtækinu í nokkra mánuði og niðurstaðan sé sú að reka hann úr starfi. 

Fréttirnar hafa haft mikil áhrif á bílaiðnaðinn enda Ghosn álitinn fremstur meðal jafningja þegar kemur að rekstri bílafyrirtækja. 

Það var saksóknari í Tókýó sem handtók Ghosn. Í tilkynningu frá Nissan kemur fram að fyrirtækið hafi farið að rannsaka Ghosn í kjölfar ábendingar frá uppljóstrara um að misferli Ghosn hafi staðið yfir í nokkur ár. 

Embætti saksóknara í Tókýó hefur ekki viljað tjá sig um fréttirnar um Ghosn og hið sama á við um Mitsubishi sem hann starfaði einnig fyrir. Leitað var í höfuðstöðvum Nissan í Yokohama í dag. 

Kyodo-fréttastofan segir að Ghosn sé sakaður um að hafa vantalið tekjur sínar um fimm milljarða jena, sem samsvarar 5,4 milljörðum króna, á fimm ára tímabili. Jafnframt hafi framkvæmdastjóri Nissan, Greg Kelly, verið handtekinn. Hlutabréf Renault hafa lækkað um rúmlega 12% í París eftir að fréttir bárust af málefnum Ghosn en það var eftir að kauphöllinni í Tókýó var lokað. 

Sérfræðingur á bílamarkaði, Satoru Takada, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þetta geti reynst afdrifaríkt fyrir bandalag Renault-Nissan-Mitsubishi en Ghosn er guðfaðir samstarfsins.

Ghosn, sem er fæddur í Brasilíu, er þekktur fyrir að draga hressilega úr rekstrarkostnaði þeirra fyrirtækja sem hann hefur stýrt. Hann er forstjóri bæði Renault og Nissan og hefur verið um langt árabil. Renault kom Nissan til bjargar árið 1999 og stýrði Ghosn niðurskurðinum sem fólst meðal annars í uppsögnum. 

Árið 2016 tók hann einnig við stjórn Mitsubishi eftir að Nissan kom bílaframleiðandanum til bjargar með því að kaupa þriðjung hlutafjár fyrir 2,2 milljarða Bandaríkjadala.

Honum er þakkað að hafa bjargað Nissan frá gjaldþroti með niðurskurðarhnífinn á lofti. Svo sem með því að loka verksmiðjum og með endurskipulagningu rekstrar. 

Ghosn er talinn vera límið sem heldur saman þríeykinu Nissan, Renault og Mitsubishi og hafa því eðlilega vaknað spurningar um framhaldið. 

Carlos Ghosn.
Carlos Ghosn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK