Gamma verður dótturfélag Kviku

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvika banki hf. og hluthafar Gamma Capital Management hf.  hafa undirritað samning um kaup og sölu á öllu hlutafé Gamma. Viðskiptin eru háð samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku. Með breyttu eignarhaldi myndast enn frekari tækifæri í starfsemi Gamma sem verður eftir kaupin dótturfélag Kviku. Markmið Kviku með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar, segir í tilkynningu til kauphallarinnar.

Kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé félagsins nemur 2.891 milljón króna að teknu tilliti til áfallinna árangurstengdra þóknana sem eftir á að tekjufæra hjá Gamma. Eigið fé Gamma í lok júní 2018 nam 2.084 milljónum króna. Þegar fyrst var tilkynnt um viðskiptin kom fram að kaupverðið væri 3,75 milljarðar króna.

Miðað við bókfært virði árangurstengdra þóknana í lok júní 2018 nemur kaupverðið 2.406 milljónum króna og skiptist með eftirfarandi hætti:

  1. Reiðufé að fjárhæð 839 milljónir króna sem greiðist við frágang viðskiptanna.
  2. Hlutdeildarskírteini í sjóðum GAMMA samtals að verðmæti 535 milljónir króna.
  3. Árangurstengdar greiðslur, sem metnar eru á um 1.032 milljónir króna m.v. stöðu Gamma í lok júní 2018 og greiðast þegar langtímakröfur á sjóði Gamma innheimtast.

Hluthafar Gamma munu auk þess eiga rétt til aukinna greiðslna vegna árangurstengdra þóknana fasteignasjóða félagsins. Kaupverðið á Gamma getur jafnframt tekið breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna Gamma þróast á næstu misserum.

Áætlað er að afkoma bankans fyrir skatta muni aukast um 300-400 milljónir króna á ári í kjölfar kaupanna. Ekki er gert ráð fyrir því að auka þurfi hlutafé Kviku vegna kaupanna. Yfirverð viðskiptanna ræðst af stöðu Gamma við frágang viðskiptanna en samkvæmt mati Kviku er það áætlað um 850 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK