Segir stöðu Icelandair flókna

Kristján Sigurjónsson ræddi nýtt landslag í flugi.
Kristján Sigurjónsson ræddi nýtt landslag í flugi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er vandasamt að ræða áhrifin núna,“ sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, á hádegisverðarfundi á vegum Ferðaklasans og Félags viðskipta- og hagfræðinga. Þar var rætt um kaup Icelandair á WOW air og nýtt landslag í flugi.

Kristján sagði að vegna þess að Samkeppniseftirlitið eigi eftir að leggja blessun sína yfir kaupin sé kannski lítið hægt að segja. „Það er erfitt að „besservissast“ um hvað gerist og þess vegna geri ég það,“ sagði Kristján og uppskar hlátur úr troðfullum salnum á Fiskislóð.

Kristján vitnaði í viðtal við Andra Má Ingólfsson, aðaleiganda Primera-samstæðunnar, frá því í lok ágúst. Þá sagði Andri að módel Primera væri gjörólíkt WOW air eða Icelandair. „Hann fór á hausinn fimm vikum seinna. Hann var brattur og var kannski á réttri leið; vildi fara beina leið frá Norður-Ameríku til Evrópu,“ sagði Kristján og bætti við að flugliðar í flugvélum Primera hefðu verið verktakar frá A-Evrópu á lúsarlaunum.

Hann spurði hvort Ísland væri heppilegur útgerðarstaður fyrir lággjaldaflugfélag og hvað þá tvö. Icelandair væri að mörgu leyti lággjaldaflugfélag og ímynd þess vestanhafs væri á þá leið. 

Fjöldi fólks hlustaði á Kristján á Grandanum í dag.
Fjöldi fólks hlustaði á Kristján á Grandanum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Flugfélög í nágrannalöndum eru farin að leggja aukna áherslu á tekjur af dýrari sætum, sem skila þeim 47% tekna, á meðan Icelandair er að minnka framboð dýrari sæta. Af hverju á þannig flugfélag að reka lággjaldaflugfélag til hliðar? Ég sé ekki hvernig Icelandair ætlar að gera það,“ sagði Kristján.

Ekki stundvísi í Keflavík

Hann sagði að Keflavíkurflugvöllur þyrfti að standa sig betur en stundvísi þar í sumar var afleit í samanburði við aðra flugvelli á Norðurlöndunum. Hann benti á að einungis 34% ferða frá Keflavík hefði verið á áætlun í júní í sumar en skekkjumörkin eru 15 mínútur.

„Það er erfitt að selja farþegum sem er mjög annt um tímann sinn að fara í gegnum Keflavík eins og staðan er,“ sagði Kristján og benti á að SAS væri til að mynda mjög annt um stundvísi og talaði um hana í uppgjörum sínum. Það hefðu WOW air og Icelandair aldrei gert.

Kristján fór einnig aðeins inn á innanlandsflugið og sagði að það væri slæmt að stjórnvöld hefðu enga sérstaka flugstefnu. Hann benti á ummæli frá framkvæmdastjóra ferðamálaráðs Finnlands sem sagði að það myndi valda miklum skaða í Helsinki ef fólk þyrfti að skipta um flugvöll þegar það kæmi þangað til að komast út á land.

„Það er ekki séns fyrir útlending að koma til Íslands og fljúga beint út á land. Kerfið er galið eins og það er ef maður horfir til ferðaþjónustunnar. Þetta er auðvitað líka ekki gott fyrir Íslendinga úti á landi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK