Leggja til lækkun skatta og sölu banka

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var með kynningu á blaðamannafundinum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var með kynningu á blaðamannafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lækkun skatta á fjármálafyrirtæki, sala Íslandsbanka til erlendra aðila og stofnun gagnagrunns með upplýsingar um skuldir einstaklinga og lögaðila eru meðal helstu tillagna í hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið.

Hvítbókin var kynnt  á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu sem hófst kl. 16 í dag. Um er að ræða skýrslu starfshóps sem skipaður var í febrúar, en hann átti upphaflega að skila vinnu sinni í maí.

Meðal annars er lagt til að stjórnvöld og eftirlitsaðilar nýti sér í auknum mæli nýja tækni til þess að auka hagkvæmni, að sett verði takmörk á umfang fjárfestingastarfsemi banka og að umgjörð neytendaverndar verði bætt.

Einnig er talið nauðsynlegt að auka stærðarhagkvæmni með auknu samstarfi um uppbyggingu fjármálainnviða og að samkeppnissjónarmið séu til hliðsjónar við fjármálaeftirlit.

Hvítbók um fjármálakerfið leggur til umfangsmiklar breytingar á fjármálakerfinu.
Hvítbók um fjármálakerfið leggur til umfangsmiklar breytingar á fjármálakerfinu. Samsett mynd/Eggert

Jafnframt er talið að fjölbreytt eignarhald sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu. Í þessu samhengi er sagt mikilvægt að stjórnvöld hugi að því að losa um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum með heildstæðum hætti.

Breytt eignarhald banka

Starfshópurinn segir að þegar litið er til eigendastefnu ríkisins og markmiða um að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, og á sama tíma skoðað hvað þarf til þess að tryggja markmið ríkisins, er talið að ekki sé þörf á jafn víðtæku eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og er nú.

Bent er á að eignarhald íslenska ríkisins í fjármálakerfinu sé mun meira hér á landi en víðast gerist. Sagt er frá því að núverandi stefna ríkisins um að halda 34-40% hlut í Landsbankanum jafngildi fjárfestingu að andvirði 3% af landsframleiðslu, sem er svipað og hlutfall norska ríkisins í bankanum DNB.

Fram kom í kynningu hvítbókarinnar að bein aðkoma erlends banka að einum íslensku bankanna er talin líkleg til að hafa jákvæð áhrif á samkeppnisumhverfi bankanna til framtíðar. Þá er lagt til að leitað sé leiða til þess að selja Íslandsbanka til erlends banka í heild sinni eða að hluta.

Samhliða því að skoða möguleika á sölu Íslandsbanka ráðleggur starfshópurinn að hafin verði vinna við að undirbúa skráningu og sölu hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum.

Einnig er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið að setja reglur um varnarlínu vegna fjárfestingabankastarfsemi. Felur tillagan í sér að ef stofnunin telur eiginfjárþörf vegna beinnar eða óbeinnar stöðutöku nái 10-15% hjá einhverjum bankanna, verður bankinn annaðhvort að draga úr umræddri starfsemi eða stofna um hana sérstakt félag.

Skattar og vextir

Skýrsluhöfundar segja mikilvægt að draga úr vaxtamun á íslenskum fjármálamarkaði og er stærðarhagkvæmni að miklu leyti það sem veldur minni vaxtamun erlendis. Lagt er til að stofnað verður til samstarfs um uppbyggingu fjármálainnviða til þess að auka hagkvæmni.

Einnig er bent á að sértækir skattar á fjármálastarfsemi hér á landi séu margfalt hærri en í öðrum löndum, um ellefu sinnum hærri en í Danmörku en að meðaltali 7,8 sinnum hærri miðað við Noreg, Svíþjóð, Holland, Írland, Bretland auk Danmerkur.

Tækni og gagnagrunnar

Starfshópurinn leggur til að stjórnvöld og eftirlitsaðilar nýti sér í auknum mæli nýja tækni til þess að sinna hlutverkum sínum með hagkvæmari hætti.

Er vísað til þess að tækniþróun getur hjálpað eftirlitsaðilum að uppgötva mynstur og uppbyggingu í stórum gagnagrunnum, umbreyta hráum gögnum og spá fyrir um efnahagshorfur og nota máltækni til að lesa skjöl og túlka texta.

Talið er að miðlægur skuldagrunnur þar sem skráðar eru skuldbindingar allra einstaklinga og lögaðila með ópersónugreinanlegum hætti myndi nýtast vel við mat á gengisáhættu, eftirlit með útlánsvöxtum og við hagfræðilegar greiningar.

Einnig er fullyrt að slíkur grunnur geti veitt betri yfirsýn lántakenda yfir eigin skuldir sem þá munu hafa tækifæri til þess að uppgötva ágalla og bregðast við. Stjórnvöld eru sögð fá betri yfirsýn yfir skuldir þjóðarinnar með gagnagrunninum og er hann talinn getað aukið skilvirkni í lánveitingum fjármálafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK