Útiloka ekki offramboð á næstu árum

mbl.is/Sigurður Bogi

Nýbyggingar sem hafa komið á markað á þessu ári og gert er ráð fyrir að komi á markað á næsta ári passa fyrstu kaupendum illa. Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs var meðalstærð nýrra seldra íbúða 103 fermetrar og meðalfermetraverð um 521 þúsund krónur. Verð meðalíbúðar var því um 54 milljónir. Gæti jafnvel verið um að ræða offramboð á nýbyggðum íbúðum sem ekki finnist kaupendur að. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Vísar hagfræðideildin til þess að forsvarsmenn vinnumarkaðarins og stjórnvalda hafi í viðræðum sínum helst rætt um mikla umframspurn eftir húsnæði og að mikilvægt sé að gera stórátak í íbúðabyggingu á næstu misserum. Sérstaklega sé þar horft til smærri og ódýrari eigna.

Íbúðalánasjóður benti til dæmis á í skýrslu sinni í apríl að áætluð uppbygging næstu tvö ár myndi ekki mæta uppsafnaðri þörf, en uppsafnaður skortur og fjölgun íbúða í skammtímaleigu var talinn nema 9.000 íbúðum. Taldi Íbúðalánasjóður að breytt aldursdreifing kallaði á 6.000 íbúðir til viðbótar.

Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins eru 4.900 íbúðir nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og er áætlað að 4.300 verði klárar fyrir árslok 2019. „Á sama tíma er verið að ræða um það við borð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar að stórauka þurfi framboð á íbúðum,“ segir í Hagsjánni.

Bent er á að núverandi og komandi framboð af nýjum íbúðum muni mögulega lítið hjálpa til við að vinna á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir og rætt sé um við samningaborð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. „Það er ekki ólíklegt að mikið framboð sé og verði á íbúðum sem fáir vilja og enn færri geta keypt,“ segir í Hagsjánni sem útilokar ekki offramboð vegna þessa.

Hagdeildin ítrekar að langur vegur sé á milli kaupgetu þeirra sem eigi við erfiðleika að etja í húsnæðismálum og kaupverðs nýrra íbúða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK