Játar vanda en tjáir sig annars ekki

Ljósmynd af nýja sjúkrahótelinu við Hringbraut, en það er verið …
Ljósmynd af nýja sjúkrahótelinu við Hringbraut, en það er verið að klára að klæða húsið að utan. mbl.is/​Hari

„Við höfum átt í einhverjum vandamálum með að afla fjár, en við höfum stjórn á stöðunni og höldum áfram með öll okkar verkefni. Þannig að það er engin dramatík í þessu,“ segir Hans Christian Munck, framkvæmdastjóri Munck Íslandi ehf., við mbl.is þegar hann er spurður um lausafjárstöðu félagsins.

Nýr Landspítali ohf. (NLSH) fór fram á tafarlausa afhendingu sjúkrahótels af Munck Íslandi í nóvember vegna ágreinings sem snýr meðal annars að tafarbótum, réttmæti reikninga, skaðabótum vegna tafa og annmörkum á verkinu.

Fram kom í umfjöllun RÚV í desember að tafarbæturnar skipti tugum til hundraða milljóna króna.

„Við lítum svo á að það hafi engin uppbyggileg áhrif á ferlið að tjá okkur um málið í fjölmiðlum,“ segir framkvæmdastjórinn spurður um kröfur á hendur félagsins fyrir gerðardómi.

Félagið sem er með stærri framkvæmdaraðilum hér á landi og starfaði áður undir nafninu LNS Saga ehf. skilaði 1,3 milljarða króna tapi árið 2017 samanborið við 223 milljóna króna tap árið 2016.

Stofnar nýtt félag

Þá lét framkvæmdastjóri félagsins, Ásgeir Loftsson, af störfum í haust og gegndi aðstoðarframkvæmdastjóri, Jón Björnsson, hlutverki Ásgeirs í stuttan tíma áður en hann einnig lét af störfum. Eigandi Munck Íslandi er nú framkvæmdastjóri félagsins.

Spurður um stjórnendaskiptin svarar Hans Christian: „Þetta er eitthvað sem við viljum ekki tjá okkur um.“

Fyrirtækið Munck Constructions Icel ehf. var stofnað 19. desember síðastliðinn og er Hans Christian skráður fyrir því samkvæmt skráningu fyrirtækjaskrár.

„Ég hef ekkert að segja um þetta félag. Við munum halda áfram þeim verkefnum sem eru í félaginu [Munck Íslandi ehf.] eins og við höfum gert til þessa og hefur engin stefnubreyting orðið í því samhengi,“ segir framkvæmdastjórinn spurður um tilgang nýja fyrirtækisins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti sér aðstæður við nýbyggingu hjúkrunarheimilsins Sólvangs …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti sér aðstæður við nýbyggingu hjúkrunarheimilsins Sólvangs í Hafnarfirði í haust. mbl.is/Eggert

Tafir á Sólvangi

Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Munck Íslandi ehf. vegna byggingar á nýju hjúkrunarheimili á Sólvangi vorið 2017. Upphaflega stóð til að afhenda fullkláraða framkvæmd 20. september 2018, en nú er talið að afhending verði 15. júní.

Spurður um gang framkvæmdanna að Sólvangi segir Hans Christian að félagið ræði ekki stök verkefni sem eru enn á framkvæmdastigi við fjölmiðla.

Í skriflegu svari Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn mbl.is segir um verkefnið að nú sé „staðan sú að framkvæmdir við hjúkrunarheimili standa enn yfir og er framkvæmdin á eftir áætlun. Umsamin verklok voru 20. september 2018 en verktaki telur sig getað skilað verkinu 15. júní næstkomandi.“

Verktakinn á þó inni einhverja framlengingu vegna nokkurra verkþátta, að því er fram kemur í svarinu. „Ekki hefur annað verið rætt hjá Hafnarfjarðarbæ en að freista þess að verktaki ljúki verkinu.“

Fjöldi manna var að störfum að Þeistareykjum.
Fjöldi manna var að störfum að Þeistareykjum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Vandræðagangur

Í september 2017 bárust fréttir af því að grunur var um að pólska fyrirtækið Korman, sem starfaði um tíma sem undirverktaki við framkvæmdir fyrir Landsvirkjun á Þeistareykjum, þar sem Munck Íslandi var aðalverktaki, hafi ekki greitt starfsmönnum eftir íslenskum kjarasamningum og að ráðningarsamningar starfsmanna hafi verið falsaðir.

Var þetta í annað sinn sem félagið lenti í þessum aðstæðum, en pólska verktakafyrirtækið G&M sem starfaði sem undirverktaki Munck Íslandi, meðal annars við byggingu sjúkrahótelsins, var staðið að því að fara ekki eftir kjarasamningum og lögum árið 2016.

Segir í umfjöllun RÚV að G&M hafi „pakkað saman og skilið pólska verkamenn sína eftir í lausu lofti. Fyrirtækið sveik starfsmennina um hundruð þúsunda króna á mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK