Einn af risum 20. aldarinnar fallinn frá

Jack Bogle er látinn.
Jack Bogle er látinn.

Jack Bogle, einn áhrifamesti maðurinn á bandarískum fjármálamarkaði til áratuga, lést í gær, 89 ára að aldri. Hann er mörgum þeim Íslendingum sem þekkja til alþjóðlegrar fjármálastarfsemi kunnur þar sem hann var stofnandi og forstjóri sjóðastýringarfyrirtækisins Vanguard til áratuga.

John Clifton Bogle var fæddur í Montclair í New Jersey í maí 1929. Hann átti tvíburabróður að nafni David. Fjölskylda þeirra varð fyrir miklum og neikvæðum áhrifum af heimskreppunni sem reið yfir um svipað leyti og þegar tvíburarnir fæddust. Þeir voru hins vegar öflugir námsmenn og árið 1947 útskrifaðist Jack, eins og hann var ætíð kallaður, með próf í hagfræði frá hinum virta Princeton-háskóla. Að loknu námi réð hann sig til starfa hjá eignastýringarfyrirtækinu Wellington Fund, þar sem hann starfaði allt þar til hann stofnaði Vanguard.

Árið 2010 lýsti viðskiptatímaritið Forbes honum með þeim hætti að hann hefði „gert meira gott fyrir fjárfesta en nokkur annar fjármálamaður á síðustu öld“. Árið 1999 hafði Fortune Magazine einnig lýst honum sem einum fjögurra „risa 20. aldarinnar“ í fjárfestingaheiminum.

Ótrúleg saga

Fáir ef einhverjir Íslendingar þekkja þó betur til starfsemi Vanguard en Sigurður B. Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri VÍB. Hann hafði forgöngu um að stofnað var til samstarfs VÍB og Vanguard árið 1998. Hann hafði einnig stutt kynni af Bogle í einni af heimsóknum sínum í höfuðstöðvar fyrirtækisins í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.

„Það er óhætt að segja að Jack Bogle sé meðal áhrifamestu manna á bandarískum verðbréfamarkaði síðustu áratugi. Hann átti ótrúlega sögu, ekki síst persónulega. Hann fæddist með hjartagalla sem hrjáði hann alla tíð. Það eru ekki nema rétt 20 ár síðan lækning fannst við þessum galla og frá þeim tíma, þegar hann var farinn að halla í sjötugt, hefur hann unnið alveg gríðarlega mikið og hvergi slegið af,“ segir Sigurður.

Sigurður B. Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri VÍB.
Sigurður B. Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri VÍB.

Segir hann að þessi atorkusemi Bogle hafi m.a. komið fram í bókaskrifum hans síðustu áratugi en stutt er síðan hann sendi frá sér nýtt rit sem nefnist „Stay the Course: The Story of Vanguard and the Index Revolution“. Hún kom út hjá forlaginu John Wiley & Sons undir lok síðasta árs.

Allt frá stofnun Vanguard og til ársins 1996 gegndi Bogle starfi forstjóra Vanguard en það sama ár gekkst hann undir hjartaígræðslu sökum hjartveiki þeirrar sem hafði hrjáð hann öll hans fullorðinsár.

Stofnaði fyrsta vísitölusjóðinn

Í bókinni rekur Bogle sögu fyrirtækisins sem hann stofnaði árið 1975.

„Þegar Bogle stofnaði Vanguard var það í kjölfar þess að hann hafði verið rekinn frá sjóðastýringarfyrirtækinu Wellington. Á þessum tíma voru að koma fram áhættusæknari sjóðir og þetta var í kjölfar mikilla efnahagslegra áfalla, sem tengdust olíukreppunni, og annarra áskorana í alþjóðlega efnahagsumhverfinu. Þegar hann stofnaði fyrirtækið hafði það hvorki heimild til eignastýringar né markaðssetningar. Hann stofnaði því sjóð sem var hlutlaus og fylgdi einfaldlega markaðnum. Kannski var þetta einhvers konar leið til að fara fram hjá regluverkinu en það breytir ekki því að þarna fékk almenningur í Bandaríkjunum í fyrsta sinn tækifæri til þess að fjárfesta í vísitölusjóði. Í því fólst í raun mikil bylting.“

Meðal þess sem Sigurður bendir á í tengslum við arfleið Bogle er sú staðreynd að með stofnun Vanguard tókst honum að lækka til mikilla muna kostnað við eignastýringu. „Virkir verðbréfasjóðir með stýringu taka í þóknun 1 til 1,5 prósent að jafnaði á meðan Vanguard 500 sjóðurinn, svo dæmi sé tekið, tekur u.þ.b. 0,1 til 0,17 prósent. Á því er gríðarlegur munur.“

Bogle hefur gjarnan verið í kastljósi fjölmiðla og þá einkum …
Bogle hefur gjarnan verið í kastljósi fjölmiðla og þá einkum þegar fjárfestingaraðferðir hans hafa verið teknar til samanburðar við aðferðir annarra fjárfesta. Einar Stefánsson

Sigurður segir að samstarf VÍB við Vanguard hafi alla tíð verið mjög farsælt. Til marks um það megi nefna að þegar 20 ár voru liðin frá því, undir lok síðasta árs, að samningar tókust um samstarf milli aðila, hafi fulltrúar komið frá Bandaríkjunum til þess að minnast tímamóta hjá Íslandssjóðum en samstarf þetta er nú í þeirra höndum.

Handtakið þétt og traust

Spurður út í kynni hans af Bogle sjálfum segir Sigurður að þau hafi ekki verið mikil en að þeir hafi þó einu sinni tekið tal saman.

„Í eitt skiptið þegar ég var staddur í höfuðstöðvum Vanguard í Valley Forge, rétt utan við Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki, þótti fulltrúum fyrirtækisins við hæfi ég myndi hitta Bogle. Við hittumst á skrifstofu hans og tókum tal saman. Ég veit ekki hvort honum hafi þótt tíma sínum vel varið í að ræða við einhvern mann frá Íslandi en hann var mjög viðkunnanlegur. Ég minnist alltaf handabandsins. Hönd hans var nokkuð beinaber en handtakið þétt og traust.“

Í dag er Vanguard annað stærsta sjóðastýringarfyrirtæki í heimi á eftir Blackrock. Það er með 5 billjónir dollara í stýringu en það jafngildir 602 þúsund milljörðum króna og hjá fyrirtækinu starfa hátt í 17 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK