Sakaðir um svik og samsæri

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Bresku kaupsýslumennirnir Kevin Stanford og Karen Millen vanda ekki þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemburg, kveðjurnar í aðsendri grein í Kjarnanum þar sem þau segja farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við þá og saka þá um svik.

Fjárfestarnir tveir voru á meðal stærstu viðskiptavina Kaupþings áður en bankinn féll haustið 2008. Tilefni skrifanna sé ákvörðun þrotabús Kaupþings um að stefna þeim á nýjan leik tíu árum eftir að þeir Hreiðar Már og Magnús hafi notað þau í svikamyllu sem þeir hafi búið til.

Rifjað er upp að verslanakeðjan Karen Millen hafi árið 2001 verið fyrstu erlendu viðskiptin sem Kaupþing hafi tekið þátt í. Í apríl 2005 hafi fjárfestarnir notað hluta af söluhagnaði sínum af sölu keðjunnar sem tryggingu fyrir kaupum á hlutabréfum fyrir 60 milljónir punda í Kaupþingi.

Þau hafi hins vegar ekki vitað að bréfin hefðu verið í geymslu frá því í hlutabréfaútboði bankans frá því árið 2004. Flest hlutabréfin, fyrir utan bréfin sem þau hafi keypt, hafi hins vegar verið seld án trygginga annarra en í bréfunum sjálfum.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hreiðar Már og Magnús eru einnig sakaðir um að hafa misnotað traust fjárfestanna í ágúst 2008 með því að nota þá í samsæri með Deutsche Bank til að lækka skuldatryggingaálag Kaupþings. Þau hafi verið nauðsynlegur liður í þeim efnum.

Sakamálarannsókn sem fylgt hafi í kjölfarið hafi skaðað orðspor fjárfestanna og möguleika þeirra á að stunda áfram viðskipti. Rakin eru ýmis mál þar sem þeir Hreiðar Már og Magnús hafi stundað viðskipti með bréf í Kaupþingi í nafni fjárfestanna án þeirra vitundar.

Hreiðar Már hafi á sama tíma verið að losa sig við persónulegar ábyrgðir af bréfum í Kaupþingi með því að koma þeim yfir í einkahlutafélög og síðan tekist að fá Seðlabanka Íslands til þess að lána bankanum 500 milljóna evra neyðarlán.

Peningarnir frá Seðlabankanum hafi að hluta til, eða 171 milljón evra, verið notaðir til þess að greiða niður skuld Kaupþings við Lindsor Holding Corporation til þess að undirbúa fyrirhugaða yfirtöku Hreiðars Más á Kaupþingi í Lúxemburg. Stolnar eignir Stanfords hafi meðal annars verið notaðar til þess.

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemburg.
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemburg. mbl.is/Þórður

Málsóknin sem fjárfestarnir standi frammi fyrir í dag snúist um lán sem Kaupþing eigi að hafa lánað Stanford til kaupa á bréfum í bankanum án hans vitundar og samþykkis. Lánasamningurinn hafi verið gerður eftir að bankinn féll.

Saka fjárfestarnir enn fremur Hreiðar Má og Magnús um að lifa á peningum úr Kaupþingi sem geymdir séu á leynilegum bankareikningum eiginkvenna þeirra í Sviss. Á sama tíma þurfi þau Stanford og Millen að verjast óréttmætum kröfum í dómsal.

Kaldhæðnislegt sé að eftir að þeir Hreiðar Már og Magnús hafi stolið háaum fjárhæðum frá íslensku þjóðinni sem myndu duga til þess að borga fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús haldi Íslendingar áfram að fjármagna hótelin þeirra í gegnum ríkisbankana Landsbanka og Íslandsbanka.

Skora fjárfestarnir að lokum á þá Hreiðar Má og Magnús að hrekja ásaknir þeirra. Ef þeir geti það ekki virðist liggja fyrir að í þessu tiltekna tilfelli borgi glæpir sig á Íslandi.

Bréfið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK