Útlit fyrir fækkun starfa á næstunni

Samkvæmt könnuninni telja stjórnendur í sjávarútvegi og hjá fjármálafyrirtækjum líklegast …
Samkvæmt könnuninni telja stjórnendur í sjávarútvegi og hjá fjármálafyrirtækjum líklegast að starfsfólki muni fækka á næsta hálfa ári. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skortur á starfsfólki er nánast enginn og útlit er fyrir að starfsfólki gæti fækkað um allt að 500 á næsta hálfa árinu, sérstaklega í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og hjá fjármálafyrirtækjum. Þetta kemur fram í svörum stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í könnun sem Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands, en könnunin er gerð ársfjórðungslega.

Samkvæmt niðurstöðunum meta nú 32% stjórnenda aðstæður í atvinnulífinu slæmar, samanborið við 12% fyrir þremur mánuðum. Þá meta 26% aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 45% fyrir þremur mánuðum og 60% fyrir sex mánuðum. Væntingarnar eru langminnstar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu og á heildina litið hafa væntingar ekki verið jafn slæmar frá því árið 2013.

60% stjórnenda telja að aðstæður muni versna á næstu sex mánuðum og einungis 8% að þær muni batna, en þar af er enginn stjórnandi í ferðaþjónustu, að því er kemur fram í samantekt Samtaka atvinnulífsins. Í öllum atvinnugreinum vænta fleiri stjórnendur verri aðstæðna en að þær muni batna.

Skortur á starfsfólki hefur einnig minnkað að undanförnu samkvæmt svörum stjórnendanna og er hann nú svipaður og árið 2012. Finna 11% fyrir skorti núna, samanborið við 32% fyrir ári. Skorturinn er aðallega í byggingariðnaði.

Þegar spurt er um breytingu í starfsmannahaldi segjast stjórnendur 17% fyrirtækja búast við að fjölga starfsmönnum, en 22% búast við að fækka þeim á næstu sex mánuðum. Út frá stærðardreifingu fyrirtækjanna segir í samantekt Samtaka atvinnulífsins að miðað við spána sé um að ræða 0,4% fækkun. Sé sú tala færð yfir á almenna vinnumarkaðinn er um að ræða 500 störf á næsta hálfa ári.

Það eru stjórnendur í fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækjum sem sjá fram á mesta fækkun starfsmanna, en þar á eftir koma stjórnendur í ferðaþjónustu. Einnig sjá stjórnendur í iðnaði fram á fækkun, en störfum gæti fjölgað í byggingarstarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Könnunin var framkvæmd af Gallup á dögunum 5. febrúar til 7. mars og voru 417 fyrirtækinu í úrtakinu sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur. 203 fyrirtæki svöruðu og var svarhlutfallið því 49%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK