Framleiða 1,5 milljónir lítra af etanóli í Skagafirðinum

Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki.
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Rax / Ragnar Axelsson

Kaupfélag Skagfirðinga mun hefja framleiðslu á miklu magni etanóls í nýrri etanólverksmiðju félagsins á Sauðárkróki á fyrri hluta næsta árs. Þetta kemur fram í samtali Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra við ViðskiptaMoggann, en etanólið er framleitt úr ostamysu sem fellur til í umsvifamikilli ostavinnslu kaupfélagsins. Etanólið kemur til viðbótar 350 tonna framleiðslu félagsins á þurrkuðu myspupróteini, sem einnig er unnið úr ostamysunni, en próteinverksmiðjan kemst í full afköst síðar á þessu ári.

Gríðarlegt umhverfismál

Þórólfur segir að prótein- og etanólframleiðslan sé gríðarlegt umhverfismál.  „Það hafa runnið 50 milljónir lítra af mysu til sjávar í ostaframleiðslunni, og í henni hafa verið þessi 350 tonn af mysupróteini, og 2.200 tonn af mjólkursykri. Þegar framleiðslan á etanólinu hefst af fullum krafti úr þessum sykri, þá munum við framleiða 1,5 milljónir lítra af 96% spíra, sem er margföld innanlandsneysla á etanóli til áfengisframleiðslu,“ segir Þórólfur.

Kaupfélagið ætlar ekki að láta sér nægja að framleiða etanól fyrir aðra, heldur hefur hugmyndir um að framleiða sjálft sín eigin vörumerki í sterku víni. „Úr þessu etanóli er hægt að framleiða 6,5 milljón stykki af t.d. 40% vodka í 750 ml flöskum.“

Milljarða viðbótartekjur

Ljóst er að þarna er um mikil verðmæti að ræða, og útlit fyrir að tekjur samstæðu Kaupfélagsins, sem voru í fyrra rúmir 36 milljarðar, aukist talsvert þegar framleiðslan er komin á fullt skrið. Um milljarða viðbótartekjur gæti verið að ræða. „Þetta er framtíðarverkefni félagsins, að teygja sig lengra í virðiskeðjunni.“

Þórólfur segir til útskýringar að ef ekki hefði verið farið út í smíði prótein- og etanólverksmiðju, þá hefði þurft að byggja hreinsistöðvar á stöðunum þar sem mysan rennur til sjávar, á Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki og í Búðardal, fyrir einn til einn og hálfan milljarð á hverjum stað. Til samanburðar er heildarkostnaður við tækjakaup í verksmiðjurnar tvær 1,2 milljarðar króna.

„Þetta er skynsamlegt og eitt mesta umhverfismál á Norðurlandi í langan tíma“ segir Þórólfur.

Etanólverksmiðjan fer í gang um mitt næsta ár. „Það er verið að kaupa tækin. Húsnæðið er tilbúið, og fyrri hluti verksmiðjunnar kominn upp. Hönnunin er langt komin, samstarfsaðilinn sömuleiðis og tækjabúnaðurinn klár. Verkáætlun gerir ráð fyrir að full framleiðsla verði hafin á fyrri hluta næsta árs.“

Selt á heimsmarkaði

Etanólið verður selt bæði innanlands og erlendis að sögn Þórólfs. Hann segir það forréttindi að rekstrargrundvöllur prótein- og etanólframleiðslunnar sé traustur frá upphafi, og helgist af verkaskiptingunni sem fyrir hendi er í mjólkuriðnaðinum. „Etanólið er notað sem íblöndunarefni í eldsneyti, í lyfjageiranum, heilbrigðisgeiranum ofl. Það er auðvelt að selja þessa vöru á heimsmarkaði. Í raun er ekki til í dag alíslenskt brennivín eða vodki, því etanólið er allt flutt inn. Reyndar er flutt inn margföld innanlandsneysla því Reyka vodkinn sem framleiddur er í Borgarnesi flytur inn allt sitt etanól, hátt í milljón lítra, sem er svo flutt út á ný.“

Þórólfur segir að Kaupfélagið hafi sett sig í samband við svona aðila, ásamt því að huga að eigin framleiðslu. „Það er framtíðarverk að búa til vörur og færa sig framar í virðiskeðjuna. Við erum að hugsa um framleiðslu á brennivíni, gini, og líkjörum.“

Iðnaðarleyndarmál

Magnframleiðsla á etanóli úr ostamysu fer í dag fram á örfáum stöðum í heiminum að sögn Þórólfs, á Írlandi, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum. „Aðferðin er iðnaðarleyndarmál á hverjum stað. Við höfum verið í rannsóknarsamstarfi við Mjólkursamsöluna, MS, útaf þessu, með innlendum vínframleiðendum og Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn. Framleiðslan er svo samstarfsverkefni KS og MS.“

Viðtal við Þórólf birt­ist í heild sinni í ViðskiptaMogg­an­um, sem fylgdi Morg­un­blaðinu á miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK