Ræða við Boeing um bætur vegna MAX

Vélar Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX 8 voru kyrrsettar …
Vélar Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX 8 voru kyrrsettar fyrr á árinu.

Icelandair mun ræða við flugvélaframleiðandann Boeing um skaðabætur vegna stýrikerfisgalla í 737 MAX 8-flugvélum framleiðandans, en Icelandair hefur fest kaup á níu slíkum vélum sem eru kyrrsettar sem stendur. Þetta kom fram í samtali RÚV við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair.

Þrjár vélanna hafði Icelandair fengið í hendur, en sex til viðbótar voru hluti af áætlun Icelandair fyrir sumarið og átti að afhenda nú fyrir sumarið. Allar flugvélar heimsins af þessari gerð voru kyrrsettar eftir að 737 MAX-8 þota Ethiopian Airlines fórst í mars.

Icelandair leigði aðrar vélar til að fylla í skarð hinna vélanna, en í máli Boga Nils kom fram að Icelandair hefði stillt leiðakerfi sitt af með það í huga að MAX-vélarnar komi aftur inn í leiðakerfið 16. júní nk. Ekki liggur fyrir hvenær kyrrsetningu flugvélanna verði aflétt.

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital varð í gær næststærsti hluthafinn í Icelandair þegar hluthafafundur samþykkti hlutafjáraukningu í félaginu. PAR Capital festi kaup á 11,5% hlut í félaginu fyrir 5,6 milljarða króna. Bogi Nils sagði í samtali við RÚV að hann vonaðist til þess að með fjárfestingunni fylgdi reynsla í flugrekstri og ferðaþjónustu. Fjárfestarnir væru öflugir og með mikla reynslu og þekkingu á flugrekstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK