Fyrsta hópfjármögnunin í gegnum Funderbeam

Tristan Gribbin, lengst til vinstri, hefur 20 ára reynslu af …
Tristan Gribbin, lengst til vinstri, hefur 20 ára reynslu af hugleiðslu. Kristinn Magnússon

Sprotafyrirtækið Flow, sem framleiðir hugleiðsluhugbúnað fyrir sýndarveruleika og leiðir notandann í gegnum hugleiðsluæfingar, aflaði sér 118 þúsund evra fjárfestingar, um 16 milljóna króna, í gegnum fjárfestingarvettvanginn Funderbeam nýverið, fyrst íslenskra fyrirtækja. Um nýja leið er að ræða fyrir íslensk fyrirtæki til að afla sér fjármagns en Funderbeam er eistneskt fyrirtæki. Það er nokkurs konar markaðstorg fyrir fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum og gerir fjárfestum kleift að fjárfesta allt frá litlum upphæðum í stærri upphæðir í óskráðum fyrirtækjum og eignast hlut í þeim.

Nýtt app í júlí

Hingað til hefur Flow aðeins verið aðgengilegt með sýndarveruleikabúnaði frá annaðhvort Samsung eða Oculus Go. Býður fyrirtækið m.a. upp á hugleiðslunámskeið fyrir fyrirtæki, bæði innlands sem og erlendis, í þeim tilgangi að minnka streitu og álag á vinnustöðum með mælanlegum árangri, svo sem á hjartslætti eða öndun. Hlutafjársöfnun sem er nýlokið gerir fyrirtækinu aftur á móti kleift að þróa hugleiðsluapp sem fólk getur notað án þess að eiga sýndarveruleikabúnað. „Við stefnum á að hleypa þessu appi í loftið í júlí. Kostir þessa apps eru að það býður upp á sama hágæða myndefni án sýndarveruleikans. Þú getur þess vegna stundað hugleiðslu með augun opin, á meðan þú t.d. stundar líkamsrækt, eða með augun lokuð þegar þú ert heima,“ segir Tristan Gribbin, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, við Morgunblaðið.

Tristan hefur stundað hugleiðslu í tæp 20 ár en einnig fylgst grannt með gangi mála hjá Startup Iceland og haft hug á því að vinna við nýsköpun í nokkurn tíma og því óhætt að segja að Flow sameini þessa hluti vel.

Yfir 100 erlendir fjárfestar

Stærsti einstaki fjárfestirinn í Flow er íslenska fjárfestingarfyrirtækið Iceland Venture Studio en þeir Bala Kamallakharan og Freyr Ketilsson stofnuðu fyrirtækið á árinu. Lagði Iceland Venture Studio 25 þúsund evrur til fyrirtækisins í þessu hlutafjárútboði Flow. Að sögn Tristan eiga nú yfir 100 alþjóðlegir fjárfestar hlut í fyrirtækinu en það fékk í gegnum tengslanet Funderbeam 25 þúsund fyrirspurnir frá fjárfestum.

Hluti af ferlinu í gegnum Funderbeam felst í því nýta sér tengslanet fyrirtækisins með tilheyrandi kynningum á starfsemi Flow en teymið fór m.a. til allra landanna á Norðurlöndum, Tallinn og Lundúna.

„Það var skemmtileg reynsla að safna hlutafé í gegnum þennan hópfjármögnunarvettvang. Við fórum meðal annars til Eistlands. Þar tekur fólk svo vel á móti Íslendingum en við fengum mjög öflugan eistneskan fjárfesti, sem hefur náð miklum árangri í sprotafjárfestingum á undanförnum árum,“ segir Tristan en fyrirtækið stefnir á enn frekari hlutafjársöfnun á næstu mánuðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK