FME skoðar afturköllun VR

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir stofnunina vera með ákvörðun fulltrúaráðs …
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir stofnunina vera með ákvörðun fulltrúaráðs VR til skoðunar. Ljósmynd/Fjármálaeftirlitið

Fjármálaeftirlitið (FME) er með ákvörðun fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) til skoðunar. Þetta staðfestir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, í samtali við mbl.is.

Þá hafa nokkrir lýst því að vafi sé um hvort aðgerð VR sé lögleg, en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt aðgerðina fullkomlega löglega.

„Almennt er ekki hægt að afturkalla umboð til stjórnarstarfa, það er bara aðalfundur sem getur veitt umboð. En ef fólk segir af sér þá stígur varamaður upp,“ segir Unnur spurð um reglur er snúa að skipun stjórna eftirlitsskyldra félaga.

„Það er okkar hlutverk hjá eftirlitinu, við þurfum að fylgjast með því að það sé löglega kjörin stjórn yfir hverjum lífeyrissjóði og hverjum eftirlitsskyldum aðila,“ útskýrir hún.

Óvenjulegar samþykktir

Unnur segir gildandi samþykktir LV óvenjulegar og að þær séu ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í dag um góða stjórnarhætti. „Eins og samþykktirnar eru í dag orkar þetta tvímælis, en það er verið að skoða lagalega stöðu aðgerðanna,“ segir Unnur.

Samþykktir LV gera ráð fyrir að VR tilnefni í stjórn LV, en að tilkynna skuli tilnefninguna á aðalfundi og að kjörtímabilið sé þrjú ár frá 1. mars.

Í fimmtu grein samþykkta LV að „stjórn sjóðsins skal skipuð átta mönnum. Fjórir eru tilnefndir af stjórn VR og fjórir tilnefndir af þeim samtökum atvinnurekenda, sem að sjóðnum standa.“ Þá er kjörtímabil stjórnar þrjú ár og hefst það 1. mars. Þó skal stjórn sitja þar til ný stjórn hefur verið tilnefnd, að því er fram kemur í samþykktunum.

Jafnframt segir í sjöttu grein að á ársfundi skuli greina frá tilnefningu stjórnarmanna og varamanna þeirra.

Sjálfstæðir í störfum sínum

Spurð um sjálfstæði stjórna segir forstjórinn: „Þegar stjórnarmenn eru kosnir í stjórn, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða önnur fyrirtæki, þá er þess vænst að stjórnarmenn séu sjálfstæðir í störfum sínum og eru fyrst og fremst trúir þeim umbjóðendum sem þeir eru fyrir, í þessu tilviki aðilum að lífeyrissjóðunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK